Varst þú alltaf ákveðin í að verða hjúkrunarfræðingur?
Nei en ég var alltaf viðloðandi heilbrigðisgeirann, til dæmis var ég læknaritari um tíma á röntgendeildinni í Fossvogi. Ég held að það að verða hjúkrunarfræðingur hafi verið í undirmeðvitundinni alla tíð því ég fann fyrir nokkrum árum minningabók sem ég hafði skrifað í þegar ég var sjö ára og þar stóð að ég ætlaði að verða hjúkrunarkona þegar ég yrði stór. Ég fór í Háskóla Íslands í hjúkrunarfræði þegar ég var 25 ára og útskrifaðist í janúar árið 2004.
Hvert lá leiðin eftir útskrift?
Við fjölskyldan fluttum þá strax til Kaupmannahafnar þar sem maðurinn minn var að fara í nám og ég fór að starfa við heimahjúkrun. Það var mikill lærdómur og góð reynsla, skjólstæðingarnir voru á öllum aldri og hjúkrunin fjölbreytt.
Við fluttum heim haustið 2004 og þá fór ég að starfa á gjörgæslunni í Fossvogi sem var rosalega góð deild að vera á og ég fékk dýrmæta reynslu þar. Það sem er öðruvísi á gjörgæsludeild er að þar er ekki bara verið að hjúkra sjúklingum sem liggja inni á deildinni heldur líka aðstandendum sem finnst aðstæður á gjörgæslu oft ógnandi. Þetta var eins og fyrr segir dýrmæt reynsla en líka erfið; hjúkrunin sjálf var þung og maður þurfti alltaf að vera í viðbragðsstöðu og til taks í akút aðstæðum.
Ég fann fljótt að þetta var ekki mín hilla í faginu og fór þá að leita fyrir mér. Ég sá svo auglýsingu frá SÁÁ, að hjúkrunarfræðing vantaði til starfa á Vogi, ég ákvað að sækja um og fékk starfið. Ég hóf störf árið 2006 og nú 18 árum seinna er ég enn á Vogi.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að sækja um stöðu aðstoðardeildarstjóra?
Árið 2017 bauðst mér að taka við stöðunni en ég hafði þá verið deildarstjóranum innan handar í nokkur ár. Það má kannski segja að ég hafi unnið mig upp í starfið, sérstaklega varðandi daglega stýringu á deildinni og yfisýn yfir mönnun og starfsmannamál.
Á vaktinni starfa um það bil 35 manns; hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, meðferðarfulltrúar og næturverðir. Vogur er lítil stofnun og hér er gott flæði á milli hlutverka deildarstjóra og aðstoðardeildarstjóra, störf okkar skarast að ákveðnu leyti sem skapar góða samvinnu okkar á milli. Bryndís Ólafsdóttir er deildarstjóri, við bætum hvor aðra upp, vinnum vel saman og deilum með okkur verkefnum.
Hvaða eiginleika þarf góður leiðtogi í hjúkrun að hafa?
Góður leiðtogi þarf að hafa mikla og góða samskiptahæfileika, búa yfir jákvæðu viðmóti og vera lausnamiðaður. Mér finnst líka mikilvægt að það sé auðvelt að leita til leiðtoga eða yfirmanna með öll mál, líka litlu málin. Leiðtogi þarf líka að geta tekið ákvarðanir, staðið með þeim og keyrt þær í gegn, hann má ekki efast um sjálfan sig og starfsfólk verður að geta treyst á sinn yfirmann.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í þínu starfi?
Ört stækkandi hópur skjólstæðinga með ópíóíðavanda, það þarf að sinna þessum skjólstæðingum og grípa þá sem vilja aðstoð fljótt því þetta er hópur sem þolir ekki bið. Umsvifin í kringum hvern skjólstæðing með ópíóíðavanda eru mikil og rýmin hér á Vogi þyrftu að vera mun fleiri ef við eigum að ná að sinna öllum sem þurfa og vilja fá hjálp við sinni fíkn. Þetta er auk þess hópur sem þarf sérhæfða göngudeildarþjónustu sem fer fram hér á Vogi.
Húsnæðið sem við höfum í dag undir þessa þjónustu er sprungið og við þurfum einnig fleiri hjúkrunarfræðinga til að sinna þessum hópi. Afeitrun fer fram á Vogi og svo fara margir á Vík í meðferð en einnig er göngudeild í Efstaleiti og á Akureyri eru margir meðferðarmöguleikar.
Hvernig hlúir þú að starfsfólki þínu sem þarf stundum að takast á við krefjandi aðstæður?
Við tölum mikið saman og styðjum þannig hvert annað. Það fer enginn starfsmaður einn inn í krefjandi aðstæður og ef starfsmaður lendir í atviki sem tengist ofbeldi, hótun eða akút ástandi hjá skjólstæðingi metum við það með viðkomandi starfsmanni hvort hann þurfi sálfræðiaðstoð. Hún er í boði hér innanhúss en ef tilvik eru metin alvarleg er einnig í boði meiri stuðningur og sálfræðiþjónusta utan frá.
Bjargráð í starfi?
Náin og góð samskipti starfsfólksins sem starfar á Vogi, við leitum mikið hvert til annars varðandi stuðning.
Hvernig hlúir þú að þinni andlegu og líkamlegu heilsu?
Ég á góða að og hreyfi mig mikið; ég hleyp og lyfti lóðum. Mér finnst það núllstilla heilann og taugakerfið að hlaupa við taktfasta tónlist. Ég hleyp yfirleitt þrisvar í viku og þess á milli lyfti ég lóðum. Ég viðurkenni að ég upplifi oft andlega þreytu eftir vinnudaginn og þá finnst mér virka best að hreyfa og eyða tíma með mínum nánustu. Við spilum og við reynum að borða alltaf kvöldmat saman, það finnst mér mikilvæg samvera.
Ertu meðvitað að vinna í því að efla leiðtogahæfileika þína til þess að verða betri yfirmaður?
Já, ég geri mér grein fyrir þeirri ábyrgð sem ég ber sem aðstoðardeildarstjóri og legg mig fram um að vanda mig í samskiptum. Ef ég sé fram á flókin mál sem kalla á krefjandi samskipti þá leita ég mér aðstoðar hjá öðrum leiðtogum á vinnustaðnum.
Hvernig sérðu að hjúkrun hér á landi muni þróast á næstu tíu árum?
Ég held að hjúkrunarfræðingar munu í auknum mæli stíga fram, taka meiri ábyrgð og sinna fleiri stjórnunarstöðum innan heilbrigðisgeirans. Ég sé líka fyrir mér að róbótar geti leyst ákveðinn mönnunarvanda eins og til dæmis lyfjaskömmtun og þess háttar en kjarninn í hjúkrun eru mannleg samskipti og róbótar munu aldrei koma í stað þeirra.
Draumastarfið þitt?
Ég myndi segja að ég væri í draumastarfinu, ég er búin að starfa á Vogi í 18 ár og á þessum árum takast á við mjög fjölbreytt verkefni. Það kemur alltaf eitthvað nýtt og spennandi. Ég er einnig í stjórn Fíh og hef verið það í hátt í fjögur ár. Sú reynsla sem ég hef fengið í gegnum starf mitt í stjórn Fíh er ómetanleg. Ég hef lært mikið og áttað mig á hversu mikilvægt vel stýrt stéttarfélag er fyrir félagsmenn þess.
Hvernig gengur þér að samræma vinnu og einkalíf?
Mjög vel, ég tek ekki vandamálin í vinnunni með mér heim en ég er vissulega oft í samskiptum við samstarfsfólk mitt utan vinnutíma því á meðal okkar hefur skapast góð vinátta í gegnum árin.
Hvað finnst þér vera það besta við þitt starf?
Að fá að taka þátt í vexti og þroska SÁÁ. Ég hef fengið að taka þátt í mikilvægum ákvörðunum hvað varðar skipulag hjúkrunar og sálfélagslegrar meðferðar sem fer fram á Vogi. Ég hef fengið tækifæri að taka þátt í rannsóknum og verkefnum og mótun hjúkrunar við sérstakra hópa sem leita aðstoðar hjá SÁÁ.
Þarft þú sem yfirmaður að eyða miklum tíma í skriffinsku og skipulag?
Nei, ég myndi ekki segja það. Minn tími fer að langmestu leyti í að sinna starfsfólki og skjólstæðingum.
Hvernig myndir þú vilja bæta þjónustuna á Vogi?
Ég myndi vilja stærra og hentugra húsnæði undir þjónustuna sem er mjög fjölbreytt. Húsnæðið var byggt 1984 og er orðið barn síns tíma, eftirspurnin eftir þjónustu SÁÁ hefur aukist í takt við fjölgun íbúa á landinu. Það þarf stærra húsnæði hér á höfuðborgarsvæðinu og einnig útibú á landsbyggðinni.
Að lokum hvað er það besta við vera hjúkrunarfræðingur?
Það hefur þroskað mig gríðarlega í samskiptum að vera hjúkrunarfræðingur. Umhyggjuþráðurinn í mér verður sterkari með árunum og reynslunni. Mér finnst ég vera á hárréttri hillu í lífinu og myndi ekki vilja starfa við neitt annað.