Fara á efnissvæði
Frétt

Óskað eftir framboðum í stjórn, sjóði og nefndir

Kjörnefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) auglýsir eftir framboðum fyrir kjörtímabilið 2025-2027.

Óskað er eftir:

  • Þremur aðalmönnum og einum varamanni í stjórn Fíh
  • Tveimur skoðunarmönnum reikninga
  • Fimm aðalmönnum í orlofsjóð
  • Þremur aðalmönnum og tveimur varamönnum í styrktarsjóð
  • Þremur aðalmönnum og einum varamanni í kjörnefnd
  • Fjórum aðalmönnum í ritnefnd (tveimur í almenna hlutann og tveimur í ritrýnda hlutann).

Stjórn Fíh

Stjórn Fíh fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Hlutverk stjórnar er að móta stefnu og megináherslur félagsins í samræmi við stefnumörkun og ákvarðanir aðalfundar. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og starfseminni gagnvart aðalfundi.

Framboðum til stjórnar Fíh skal fylgja stutt kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu framboðs ásamt rökstuðningi um færni til að gegna stjórnarsetu. Kynning á frambjóðendum til stjórnar Fíh fer fram á samfélagsmiðlum Fíh að loknum framboðsfresti.

Orlofssjóður

Hlutverk orlofssjóðs er að auðvelda sjóðsfélögum að njóta orlofs. Stjórn orlofssjóðs ber ábyrgð á reglum varðandi úthlutanir úr sjóðnum og kynnir þá þjónustu sem stendur félagsfólki Fíh til boða á hverjum tíma svo og umsóknarfresti. Stjórn orlofssjóðs sér um að eignum sjóðsins er vel haldið og er vakandi fyrir nýjum möguleikum varðandi orlof félagsfólks.

Styrktarsjóður

Hlutverk styrktarsjóðs er að styrkja sjóðsfélaga með fé og koma til móts við þá í tengslum við tekjutaps vegna ólaunaðrar fjarvinnu sjóðsfélaga frá vinnu, vegna veikinda sjóðsfélaga, nákominna eða annarra persónulegra aðstæðna, útgjalda vegna andláts sjóðsfélaga eða barna þeirra (18 ára og yngri), íþróttaiðkunar, heilsuræktar, endurhæfingar eða annarra heilsutengdra málefna. Sjóðurinn veitir auk þess fæðingarstyrki.

Kjörnefnd

Hlutverk kjörnefndar er að annast undirbúning og framkvæmd formannskjörs og kosninga til stjórnar félagsins, nefndir og sjóði. Nefndin tilkynnir um framboðsfrest, veitir framboðum viðtöku og tryggir að unnt sé að manna embætti á vegum félagsins. Nefndin útbýr lista yfir frambjóðendur og önnur kjörgögn eftir því sem þörf er á. Framboð til stjórnar og annarra embætta sem kosið er í á aðalfundi eru birt á vef félagsins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.

Ritnefnd

Hlutverk ritnefndar er að marka ásamt ritstjóra stefnu tímaritsins og annast umsjón með útgáfu þess. Nefndin velur sér formann og skiptir með sér verkum að öðru leyti.

Samkvæmt lögum félagsins er kosið til tveggja ára í senn, nema í tilfelli skoðunarmanna, þar er kosið til eins árs í senn. Hámarksseta í nefndum og stjórn er fjögur tímabil samfellt.

Framboðsfrestur til og með 17. apríl

Félagsfólk með fulla aðild eru kjörgengir í stjórn, sjóði, nefndir og ráð á vegum félagsins ef lög þessi eða landslög kveða ekki á um aðra skipan. Félagsfólk með fagaðild og lífeyrisaðild er kjörgengt í nefndir og ráð á vegum félagsins ef lög þessi eða landslög kveða ekki á um aðra skipan.

Kosning fer fram á aðalfundi félagsins, 15. maí 2025. Framboðsfrestur er til og með 17. apríl 2025. Boðið verður upp á streymi af aðalfundinum og rafrænar kosningar líkt og í fyrra fyrir þá sem ekki eiga heimangengt.

Framboð tilkynnist til kjörnefndar í netfangið [email protected]. Frambjóðendur eru beðnir um að skila til kjörnefndar fullu nafni, kennitölu, símanúmeri og netfangi.