Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Aðalbjörg Albertsdóttir

Gestur Rapportsins er Aðalbjörg Albertsdóttir, hjúkrunarstjóri taugasviðs Reykjalundar og doktorsnemi í svefnrannsóknum.

Gestur Rapportsins er Aðalbjörg Albertsdóttir, hjúkrunarstjóri taugasviðs Reykjalundar og doktorsnemi í svefnrannsóknum.

„Ég er að rannsaka verkjað svefnleysi út frá sjónarhóli þeirra sem hafa það,“ segir Aðalbjörg Albertsdóttir, hjúkrunarstjóri taugasviðs Reykjalundar og doktorsnemi í svefnrannsóknum, um verkefnið sitt.

„Árið 2011-12 byrjuðum við á Reykjalundi með hópmeðferð fyrir fólk með MS, ég tók að mér hjúkrunarþáttinn og var að skoða hver væru algengustu vandamál fólks með MS og eitt af því var mikil þreyta. Svo tók ég eftir að fólkið glímdi líka við mjög mikinn svefnvanda, sem er algengt hjá fólki á Reykjalundi. Þegar ég fór í diplómanám í starfsendurhæfingu árið 2017 þá ákvað ég að skoða betur algengi svefnvanda hjá fólki með MS, fylgdi því eftir í meistaranáminu mínu í starfsendurhæfingu. Þetta var þýðisrannsókn og niðurstaðan var að 80% fólks með MS er með svefnvanda. Það sem kom mér mest á óvart, því ég skoðaði alls konar svefnvanda, var að svefnleysi og verkir höfðu sterk tengsl við svefngæði en ekki aðrir þættir sem ég skoðaði eins og kæfisvefn eða fótaóeirð.“

Á Reykjalundi hefur verið settur á fót svefnskóli til að hjúkra skjólstæðingum með svefnvanda. „Þetta er meðferð sem byggir á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar, þetta er fræðsluprógram,“ segir Aðalbjörg. „Þar förum við yfir þætti sem eru mikilvægir við meðferð svefnleysis. Núna höfum við meðferðarúrræði við svefnleysi.“

Stofna Fagdeild svefnhjúkrunarfræðinga

Miklar rannsóknir eru nú í gangi í svefnheiminum, stendur nú til að stofna Fagdeild svefnhjúkrunarfræðinga innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

„Mér fannst vanta vettvang til að tengja saman hjúkrunarfræðinga, á ráðstefnum hef ég hitt hjúkrunarfræðinga sem eru að vinna við allt mögulegt, rannsaka heilaáfall, rannsaka svefn hjá fólki á gjörgæslu og eru að vinna hver í sínu horni, það er mikilvægt að leiða okkur saman og efla þekkinguna hjá okkur,“ segir hún.

Stofnfundurinn verður haldinn mánudaginn 14. apríl kl. 16:15 í sal Fíh á Suðurlandsbraut 22 og eru allir hjúkrunarfræðingar velkomnir.