Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Sigrún Huld Þorgrímsdóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun.

Sigrún Huld var einn aðalfyrirlesara á ráðstefnunni Hjúkrun 2023 sem fram fór í lok september. Í þættinum ræðir hún um sinn feril, bókaskrifin og ýmis málefni sem tengjast öldrunarhjúkrun og hjúkrun fólks með heilabilun.

Meðal þess sem hún ræddi í erindi sínu var að fá fleiri fagstéttir að borðinu þegar kemur að öldrunarþjónustu. „Ég þurfti að taka í mig kjark því ég óttaðist að særa kollega mína, sem ég vil síst af öllu,“ segir hún. „Við erum heilbrigðisstarfsstétt og heilbrigðisfagstétt er líka sjúkdómafagstétt. Öldrun er ekki sjúkdómur og það sem við gerum fyrir færniskerta aldraða er að minnstu leyti hjúkrun. Það er misskilningur að það sé hjúkrun að veita einhverjum ‘bedside aðstoð‘, að hjálpa einhverjum á fætur, hjálpa einhverjum í bað og svo framvegis. Þetta er ekki hjúkrun. Við erum vön að líta á það sem hjúkrun því þetta er svo stór þáttur í allri hjúkrun en þetta er í sjálfu sér ekki hjúkrun.“

Nefndi hún í erindi sínu iðjuþjálfa og þroskaþjálfa. „Það er mjög fínt að heilbrigðisstarfsfólk sem hefur alla þessa reynslu og sérfræðiþekkingu í svona aðstoð komi að þessu borði en það væri líka fínt að fá einhverja sem eru betri en við í að segja hvernig mætti gera þetta með endurhæfandi aðferðum, hvernig við getum gert þetta og virt sem mest sjálfræðið. Það er vissulega búið að tala um það, það er búið að tala um það árum saman í hjúkrun að gera ekki fyrir fólk það sem það getur sjálft, en það er rosalega erfitt fyrir okkur því okkar hugmyndafræði í grunninn er að við gerum fyrir fólk. Það er ekki alfarið slæmt, það er mjög góð hugmynd en það er mjög fínt fyrir okkur að fá aðrar fagstéttir til að aðstoða færniskerta aldraða.“