Ingibjörg hætti störfum á Landspítala fyrr á þessu ári en er nú bæði að kenna við Háskóla Íslands auk þess að taka þátt í ýmsum verkefnum. Má þar helst nefna tölvuleikjaverkefni þar sem markmiðið er að kenna hjúkrunarfræðingum í heilsugæslu og heimahjúkrun hvernig framkvæma á heildrænt öldrunarmat. Alls tekur það um þrjú ár og er hópurinn sem stendur að því kominn hálft ár inn í verkefnið.
„Þetta verður á netinu, það eru fyrirlestrar og tölvuleikjaviðmót, það er líka vettvangsnám. Þetta verður aðgengilegt fyrir alla hjúkrunarfræðinga í Evrópu og hægt að nota sem viðbótarnám, þetta eru átta ECTS-einingar en einnig hægt að nota í grunnnámi ef það er talið vera gott,“ segir Ingibjörg. Hópurinn sem stendur að þessu verkefni hlaut stóran styrk til að koma því af stað. „Ég vona að þetta muni nýtast heilsugæslunni og öllum hjúkrunarfræðingum sem starfa með öldruðum. Rannsóknir sýna að það að framkvæma heildrænt öldrunarmat bætir bæði heilsu og lífslíkur þeirra sem eru aldraðir. Við þurfum að gera það í framtíðinni því að öldruðum er að fjölga.“
Lítil rannsókn með víðtæk áhrif
Hún hefur rannsakað margt í gegnum tíðina, rannsókn sem snýr að gæludýrum stendur sérstaklega upp úr. „Uppáhaldsrannsóknin mín er lítil rannsókn sem ég gerði inni á Landakoti í kringum aldamótin. Þar fengum við Hundaræktendafélag Íslands til að koma með hunda inn á tvær deildir fyrir heilabilað fólk. Erlendis þá eru dýr inni á hjúkrunarheimilum og sjúkrastofnunum, það var algjörlega bannað á Íslandi og ég hreinlega gat ekki fengið leyfi hjá Heilbrigðiseftirlitinu og spítalanum til að fara með hunda inn á Landakot. Þannig að ég fékk leyfi hjá ráðherra, Siv Friðleifsdóttir var þá umhverfisráðherra og hún veitti mér leyfi til að gera þessa rannsókn,“ segir Ingibjörg.
„Við framkvæmdum þessa rannsókn, hundarnir komu tvisvar í viku í heimsókn og höfðu samskipti við sjúklingana. Þetta vakti mikla gleði meðal sjúklinganna, við fylgdumst með áhrifunum og gerðum svo rannsóknarskýrslu. Það var svo greinilegt, eins og hefur komið fram erlendis, að þetta hefur góð áhrif á þá. Þegar við kláruðum rannsóknina þá fór ég aftur til ráðherra, til Sivjar, og sagði henni frá niðurstöðum rannsóknarinnar með hundana inni á Landakoti og hún breytti reglugerð. Núna hljóðar reglugerðin þannig að það má halda dýr inni á sjúkrastofnunum.“
Í dag má víða finna ketti inni á hjúkrunarheimilum. „Mér hefur fundist áhrif þessarar litlu rannsóknar, að gera sjúkrastofnunum kleift að vera með dýr er það sem ég er einna ánægðust með af öllum niðurstöðum rannsókna hjá mér, því ég er svo mikill dýravinur. Á móti kemur að það þurfa auðvitað að vera staðir þar sem eru engin dýr fyrir þá sem eru hræddir við dýr eða hafa með ofnæmi.“