Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti landlæknis.

Gestur Rapportsins að þessu sinni er Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna hjá Embætti landlæknis. Hún hlaut hvatningarstyrk Fíh á síðasta aðalfundi félagsins fyrir störf sín sem öflugur talsmaður sjálfsvígsforvarna.

Árið 2010 missti Guðrún Jóna missti son í sjálfsvígi, hefði hann orðið þrítugur nú í byrjun júní. Árið 2011 kom hún að stofnun Minningarsjóðs Orra Ómarssonar og kostaði sá styrktarsjóður þýðingu bókarinnar Þrá eftir frelsi sem ætluð er fyrir aðstandendur sem missa í sjálfsvígi. Hún hefur í mörg ár unnið í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur sem misst hafa nákominn í sjálfsvígi. Hún var fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, var varamaður í stjórn Sorgarmiðstöðvar við stofnun hennar og formaður stjórnar 2020-2021.

„Það að halda utan um syrgjendur er sjálfsvígsforvörn í sjálfu sér, rannsóknir sýna að þeir sem missa í sjálfsvígi upplifa sjálfir sjálfsvígshugsanir. Postvention, upp á ensku, stuðningur við þá sem eftir sitja, er mikil sjálfsvígsforvörn,“ segir Guðrún Jóna. Hún heldur nú utan um aðgerðaráætlun stjórnvalda frá 2018 sem ætlað er að fækka sjálfsvígum. „Í þessari aðgerðaráætlun eru 54 aðgerðir, eða verkefni, á þessum árum hefur okkur tekist að loka 12 verkefnum. Við getum gert betur, málið er að sumar aðgerðir eru víðfeðmar og taka til margra ráðuneyta.“

Hjúkrunarfræðingar geta leikið stórt hlutverk

Í byrjun júní gaf minningarsjóðurinn út aðra bók, Velkominn í sorgarklúbbinn. „Sú bók er allt öðruvísi en allar bækur sem ég hef séð um sorg, þetta er teiknimyndabók,“ segir Guðrún Jóna. „Þetta er ung kona, bandarísk, sem missti manninn sinn. Hún er grafískur hönnuður og hafði verið að gera tækifæriskort, hún byrjar að safna saman myndum um sorg, einhverju sem henni finnst fyndið eða óheppilegt sem fólk segir.“

Bókin Velkominn í Sorgarklúbbinn kom út í byrjun mánaðarins.

Hjúkrunarfræðingar geta leikið stór hlutverk þegar kemur að sjálfsvígsforvörnum. „Hjúkrunarfræðingar eru úti um allt. Það að meta líðan skjólstæðinga sinna, sjá breytingu í hegðun, hvort viðkomandi tjá sig um vanlíðan, vera ófeiminn við að spyrja. Svo að leita sér hjálpar, á öllum heilsugæslustöðvum er hægt að ráðfæra sig. Fræðsla um sjálfsvíg, sjálfsvígshegðun og sjálfsvígsatferli er ótrúlega mikilvæg. Það er samræmd fræðsla á Landspítalanum, hún hefur verið fyrir geðsviðið og BUGL, ég veit að það er í vinnslu að gera þetta valkvæða fræðslu fyrir aðrar deildir.“

Sumir án tengingar við kerfið

Skömm í tengslum við sjálfsvíg hefur verið á undanhaldi hér á landi síðustu áratugi. „Við eigum samt langt í land,“ segir hún. „Áður en maður lendir í því að eiga 16 ára son sem er góður námsmaður, á vini af báðum kynjum og hefur aldrei upplifað áföll, þá er svo gott fyrir mann að hugsa að þetta séu bara þeir sem hafa málað sig út í horn, eigi við fíknivanda og búnir að koma sér í eitthvað. En málið er það að þeir sem falla fyrir eigin hendi eru af báðum kynjum, á öllum aldri, margir aðstandendur lýsa þessu eins og slys. Það er alls ekki þannig að allir eigi langa sjúkrasögu að baki, sumir hafa jafnvel engar tengingar við kerfið. Það er það sem gerir sjálfsvígsforvarnirnar svo erfiðar, þeir sem upplifa svona angist leita sér ekki endilega hjálpar.“

Guðrún Jóna hefur trú á að nýjar lausnir muni finnast í framtíðinni. „Ég hef trú á því að við eigum eftir að skoða hvort það sé einhver efnafræði, efnafræði heilans, hvort það sé of mikið af einhverju eða of lítið. Það er ekkert langt síðan þunglyndi varð meðhöndlanlegur sjúkdómur. Ég held að við eigum eftir að læra meira og vonandi með vísindalegum aðferðum brugðist við vanlíðan.“

Guðrún Jóna var einnig í viðtali í þættinum Dagmál á mbl.is, áskrifendur geta horft hér á viðtalið.