Fara á efnissvæði
Frétt

Samstaða og samningsvilji

Pistill Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh.

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Á síðustu vikum hefur gengið vel á samningafundum Fíh með bæði ríki og Reykjavíkurborg. Ég finn fyrir óþreyju meðal hjúkrunarfræðinga að vita hver staðan er í kjaraviðræðunum. Ég get upplýst að síðustu tvær vikur hafa viðræðurnar gengið ágætlega og það er fullur samningsvilji meðal hjúkrunarfræðinga til að semja til fjögurra ára. Á fundunum hefur náðst samstaða um talsvert af þeim atriðum sem við leggjum áherslu á, þar sem bæði er byggt á viðhorfskönnunum og samtölum við hjúkrunarfræðinga.

Það er bæði fundað beint með samninganefndunum og í undirhópum um einstaka atriði í samningunum. Samninganefndir Fíh leggja mikið upp úr því að halda bæði stjórn Fíh og trúnaðarmannaráði upplýstum um gang viðræðnanna. Á fundi með trúnaðarmönnum og stjórn í gær var samhljómur um að mikilvægt sé að jafnræðis sé gætt þegar kemur að virðismati starfa, þá sérstaklega með hliðsjón af störfum annarra háskólamenntaðra sérfræðinga auk jafnræðis á sviði réttindamála.

Samnorrænar áskoranir

Núna í september stóð Fíh að ráðstefnu Bandalags hjúkrunarfélaga á Norðurlöndunum, NNF. Hjúkrunarfræðingar á öllum Norðurlöndunum og heilbrigðiskerfi þeirra standa frammi fyrir stórum sameiginlegum áskorunum og á ráðstefnunni voru teknar fyrir tvær slíkar áskoranir, annars vegar mönnun hjúkrunarfræðinga og hins vegar ráðningar hjúkrunarfræðinga á milli landa.

Howard Catton framkvæmdastjóri Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) var fyrri aðalfyrirlesari ráðstefnunnar og í erindi sínu fór hann yfir óhyggjandi rannsóknarniðurstöður sem sýna fram á bein tengsl milli mönnunar hjúkrunarfræðinga og öryggi sjúklinga. Niðurstöður stórra alþjóðlegra rannsókna halda áfram að styðja við þá niðurstöðu að ekki er hægt að skipta hjúkrunarfræðingum út fyrir ófaglegt eða minna menntað starfsfólk án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífslíkur sjúklinga og gæði og öryggi þjónustunnar. Einnig átti hann mjög góðan fund með okkur Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra þar sem mikilvæg málefni voru rædd er varða hjúkrunarfræðinga og heilbrigðisþjónustuna hér á landi.

James Buchan prófessor í hjúkrunarfræði var seinni aðalfyrirlesarinn og fór yfir hvernig tókst að gera mönnunarviðmið að viðurkenndri venju í vissum fylkjum Ástralíu. Þar var mikil umræða um að ekki væri hægt að innleiða slík viðmið vegna skorts á hjúkrunarfræðingum en svarið var að væri ekki hægt að binda endi á skortinn nema bjóða hjúkrunarfræðingum upp á gott starfsumhverfi og það væri ekki hægt nema með því að tryggja góða mönnun. Síðastliðið ár hefur heilbrigðisráðherra látið skoða mönnunarviðmið hér á landi og skilaði vinnuhópurinn skýrslu, Mönnunarviðmið í hjúkrun í júní síðastliðnum. Því miður hefur hún ekki ennþá verið birt opinberlega en fékk ég þó leyfi til að kynna helstu niðurstöður hennar. Ég vona að ráðuneytið birti skýrsluna sem fyrst opinberlega enda mjög mikilvægar niðurstöður í fyrstu skrefum þessarar nauðsynlegu vegferðar í að kortleggja mönnunarviðmiðin hér á landi.

Buchan fór einnig yfir stöðuna á ráðningum hjúkrunarfræðinga á milli landa. Um allan heim eru hjúkrunarfræðingar takmörkuð auðlind, vandi sem má rekja til vanfjárfestingar í hjúkrun. Í ríkari löndum eru töluvert fleiri hjúkrunarfræðingar en samt sem áður hefur borið á því að þeir séu beinlínis sóttir til landa sem þurfa enn meira á þeim að halda, til þess eins að þurfa ekki að fjárfesta betur sjálf í hjúkrunarfræðingum. Hér á landi er ekki hægt að standa undir mönnunarþörfinni hérlendis eingöngu með hjúkrunarfræðingum sem útskrifast á Íslandi og tökum við vel á móti öllum þeim sem hingað vilja flytja. Það eru skýrar reglur um hvernig hægt er að fá hjúkrunarleyfi á Íslandi og er þeim reglum fylgt eftir í hvívetna hjá Embætti landlæknis. Það verður þó að segjast eins og er að nú þegar eru merki hér á landi um skipulagðar ráðningar hjúkrunarfræðinga erlendis frá og er það miður. Hér þarf að tryggja góðar móttökur erlendra hjúkrunarfræðinga, skipulagða fræðslu um íslenskt heilbrigðiskerfi, menningu og gera kröfu um að þeir læri íslensku. Mikið verk að vinna þar og vinnur félagið að stöðugt í því að endurbæta þá þætti sem lúta að Fíh enda 8% starfandi hjúkrunarfræðinga af erlendu bergi brotnir.

Það var mikill samhljómur á ráðstefnunni um þessi málefni og sendi NNF því yfirlýsingu á stjórnvöld allra Norðurlandanna þar sem skorað er á þau að fylgja reglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um ráðningar hjúkrunarfræðinga milli landa. Hvað þarf að gera til að tryggja sjálfbærni heilbrigðisþjónustu landanna á sama tíma og uppfylla þarf alþjóðlegar skuldbindingar um siðferðileg vinnubrögð og jafnan rétt til heilsu á alþjóðavísu eins og WHO mælir til. Meira verður fjallað um ráðstefnuna í næsta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga sem kemur út síðar í haust.

Hjúkrun við lífslok

Í næstu viku höldum við Hjúkrunarþing 2024 þar sem þemað er Hjúkrun við lífslok. Málefni dánaraðstoðar hefur verið þó nokkuð í umræðunni í þjóðfélaginu og ætlum við sem fagstétt að ræða og fræðast um þetta flókna viðfangsefni út frá sem flestum sjónarhornum. Við munum t.d. heyra frá siðfræðingi, fulltrúum samtaka og fagfólki sem hefur starfað við dánaraðstoð. Því miður er fullbókað á viðburðinn sjálfan og komast færri að en vilja en hægt verður að fylgjast með í beinu streymi sem verður aðgengilegt á Mínum síðum. Þar verður einnig að finna upptöku af Hjúkrunarþinginu að því loknu og vil ég hvetja ykkur sem flest til að nýta ykkur streymið eða upptökuna eftir á enda mikilvægt málefni fyrir okkur hjúkrunarfræðinga.

Margt spennandi framundan í vetur og farið vel með ykkur umfram allt.