Fara á efnissvæði
Frétt

Skráning hafin á ráðstefnu ICN 2025

Fíh hvetur hjúkrunarfræðinga til að fjölmenna á ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga sem haldin verður í Finnlandi í júní á næsta ári.

Skráning er hafin á ráðstefnu Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) árið 2025 í Finnlandi.

Ráðstefnan verður haldin dagana 9.-13. júní 2025 í Messukeskus ráðstefnuhöllinni í Helsinki.

Þetta er í fyrsta sinn frá 2001 sem ICN heldur ráðstefnu á Norðurlöndunum, Fíh hvetur því hjúkrunarfræðinga til að missa ekki af tækifærinu og gera ráð fyrir ráðstefnunni í ráðstefnudagatali næsta árs. Ráðstefnan er styrkhæf í starfsmenntunarsjóð Fíh.

Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, og Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, hafa gefið út myndband og hvetja íslenska hjúkrunarfræðinga til að fjölmenna á ráðstefnuna.

Kraftur hjúkrunarfræðinga

Þema ráðstefnunnar 2025 er „Kraftur hjúkrunarfræðinga til að breyta heiminum“ (e. The Power of Nurses to Change the World) sem sýnir fram á hið nauðsynlega hlutverk sem hjúkrunarfræðingar gegna í heilbrigðisþjónustu á öllum sviðum.

Líkt og á fyrri ráðstefnum ICN gefst hjúkrunarfræðingum kostur á að víkka tengslanet sitt, læra af hvor öðrum og kynnast leiðtogum frá öllum heimshornum. Boðið verður upp á fróðleik frá framúrskarandi leiðtogum í hjúkrun.

Pamela Cipriano, forseti ICN, segir í tilkynningu að rúmlega 10 þúsund ágrip hafi borist á ráðstefnuna og búið sé þegar að bóka stóran hóp af sérfræðingum til að halda erindi. „Ráðstefnan verður vettvangur fyrir allar nýjustu upplýsingar um málefni hjúkrunarfræðinga,“ segir hún. „Við erum mjög stolt að bjóða upp á þetta frábæra tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til að mynda sambönd og auka þekkingu sína.“

Forskráningu lýkur 28. febrúar næstkomandi.

100 árum síðar

Á næsta ári verða liðin 100 ár frá því ráðstefna ICN var síðast haldin í Helsinki. Minnst tveir íslenskir hjúkrunarfræðingar fóru á þá ráðstefnu fyrir hönd Fíh, Sigríður Eiríksdóttir formaður og Guðný Jónsdóttir ritstjóri tímaritsins. Félag finnskra hjúkrunarfræðinga, Sairaanhoitajat, hafa útbúið skemmtilegt myndband þar sem sýnt er frá ráðstefnunni 1925.