Viðtal: Sölvi Sveinsson | Myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir
Marianne Elisabeth Klinke er mörgum kunn en hún er ein af fremstu taugahjúkrunarfræðingum landsins. Hún á að baki áhugaverðan feril í faginu, hefur hjúkrað á Grænlandi, Íslandi og í Danmörku. Hún hefur sérhæft sig í taugahjúkrun og lauk meistara- og doktorsprófi frá Háskóla Íslands og sinnir nú bæði akademískum störfum við HÍ auk þess að starfa á Landspítala. Marianne er dönsk en fæddist á Grænlandi og ársgömul flutti hún til heimalandsins þar sem hún ólst upp við gott atlæti með eldri bróður sínum. Að loknu námi í hjúkrun leitaði hugur hennar aftur til landsins þar sem hún fæddist og allt í einu var hún flutt þangað um miðjan vetur. Við hjá Tímariti íslenskra hjúkrunarfræðinga hittum Marianne á dögunum og fengum að heyra brot af áhugaverðri sögu hennar.
Fann sig strax í faginu
Marianne sá ekki fyrir sér að verða hjúkrunarfræðingur: „Það var fyrir slysni að ég fór í hjúkrunarfræði. Ég ætlaði að verða læknir eða listmálari en komst ekki inn í læknisfræði í Kaupmannahöfn og langaði ekki að sækja um í háskólum fyrir utan höfuðborgina. Þá ákvað ég að taka eitt ár í hjúkrun sem reyndist hárrétt ákvörðun. Ég fann mig strax í faginu og hef verið ánægð með starfið sem býður upp á ótal möguleika. Það er svo gaman að vera hjúkrunarfræðingur og vinna í teymi og ég upplifi að maður hafi mikið vægi í teymisvinnunni. Sérstaklega á Íslandi, það er lítil stéttaskipting hér samanborið við víða annars staðar. Í náminu og fyrst eftir útskrift fannst mér allt spennandi nema taugahjúkrun sem endaði svo á að vera mín sérgrein,“ segir Marianne og hlær.

Fæddist á Grænlandi og fór aftur þangað til að vinna mörgum árum seinna
Grænland hefur verið örlagaríkur staður í lífi Marianne. „Ég fæddist í Sisimiut á Grænlandi, árið 1973 og bjó þar fyrsta árið. Foreldar mínir voru ævintýragjarnir og höfðu búið þar í nokkurn tíma þegar ég kom í heiminn. Faðir minn sinnti ýmsum störfum og mamma hugsaði um okkur systkinin en ég á einn eldri bróður. Ég man ekkert frá árunum á Grænlandi en við kvöldverðarborðið heima var gjarnan talað um tímann þar. Þegar ég kláraði hjúkrunarnámið fékk ég löngun til að fara til Grænlands og sjá hvar ég fæddist en ég vildi vita hvort það væri jafn dásamlegt þar og fjölskyldan hafði lýst.“
Stuttu eftir útskrift úr hjúkrunarfræði var Marianne að fletta dönsku hjúkrunartímariti og kom auga á atvinnuauglýsingu frá Grænlandi. „Af forvitni ákvað ég að hringja og spyrjast fyrir um starfið. Boltinn fór að rúlla og átta dögum seinna var ég lögð af stað til Grænlands. Það var alls ekki planið hjá mér, ég ætlaði að vinna á innkirtladeild í Næstved. Ég útskrifaðist í nóvember 1996 og í desember var ég mætt til að vinna á barna- og lyflækningadeild á Dronning Ingrids Hospital í Nuuk. Ég man svo vel hvað það var ískalt þarna en þetta reyndist vera mikil lífsreynsla og algjör eldskírn. Ég var ráðin til sex mánaða og að þeim tíma liðnum var augljóst fyrir mér að mig vantaði reynslu í bráðahjúkrun. Ég ákvað því að sækja um starf á gjörgæsludeild í Kaupmannahöfn en var samt ákveðin í að fara aftur til Grænlands síðar.“
Á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn vantaði einungis hjúkrunarfræðing á taugagjörgæsluna en taugahjúkrun var alls ekki efst á lista hjá Marianne en hún sótti samt um starfið. „Það voru margir umsækjendur en ég hafði heppnina með mér og fékk starfið. Við tók þriggja mánaða metnaðarfullt aðlögunarferli. Ég datt strax inn í taugahugsunina því kennslan og aðlögunin var einstaklega góð. Sem hjúkrunarfræðingar fengum við talsverða ábyrgð, það var tekið mark á okkur og ég kynntist í fyrsta skiptið alvöruteymisvinnu. Ég gjörsamlega heillaðist af sérsviðinu,“ segir hún.
Eftir skemmtilegan tíma í Danmörku leitaði hugur Marianne aftur til Grænlands. Hún stóð við fyrri áætlanir um að snúa aftur til landsins og nú reynslunni ríkari. „Eftir um eitt og hálft ár í starfi á taugagjörgæslunni réði ég mig aftur til starfa á Grænlandi. Á sjúkrahúsinu í Nuuk var kominn talsvert betri tækjabúnaður og mun meiri fókus á taugahjúkrun. Þar fór ég að vinna í óformlegu taugateymi,“ segir Marianne.
Sjúkraflug hluti af starfinu á Grænlandi
Marianne flutti allar eigur sínar til Grænlands og fékk tveggja ára fastráðningu en fastráðnir starfsmenn fengu fjölbreytt tækifæri á spítalanum og hluti af starfinu var að sinna sjúkraflugi. „Ég hafði séð sjónvarpsþætti um hjúkrunarfræðinga sem unnu við sjúkraflug í Ástralíu og fannst það heillandi.“ Í raunveruleikanum var sjúkraflug ekki sveipað sama dýrðarljóma og hún hafði ímyndað sér. „Starfinu fylgdi mikil ábyrgð og ýmislegt gat komið upp á. Við þurftum stundum að taka mjög erfiðar ákvarðanir og vinna í þröngu umhverfi. Þetta var þó mjög spennandi og ég bjó að góðri reynslu frá gjörgæslunni. Besti grunnurinn var þjálfunin í taugamati sem er í raun stór hluti af starfi mínu enn í dag. Það var ýmislegt sem kom upp á á Grænlandi og það er mér til að mynda minnisstætt þegar íbúðablokk brann og súrefni var af skornum skammti svo við urðum að deila því á milli sjúklinga.“
Grænland er örlagastaður í lífi Marianne. Ekki nóg með að hún sé fædd þar heldur kynntist hún líka manninum sínum þar sem er ástæða þess að hún flutti til Íslands fyrir næstum 25 árum. „Stærsta ævintýrið sem ég lenti í á Grænlandi var að kynnast manninum mínum. Í fyrra skiptið sem ég dvaldi á Grænlandi eignaðist ég mjög góða íslenska vinkonu, Halldóru Grétarsdóttur hjúkrunarfræðing, sem bjó þar ásamt fjölskyldu sinni. Ég kynntist íslenskum manni sem vann hjá eiginmanni Halldóru. Við hittumst nokkrum sinnum fyrir tilviljun og svo allt í einu uppgötvaði ég hvað hann var sætur,“ segir hún brosandi. Tíminn á Grænlandi var dýrmætur segir hún, bæði persónulega og faglega en eftir tæplega tveggja ára búsetu þar fann hún að þessu tímabili í lífi sínu væri lokið enda voru hagir hennar breyttir. „Það var frábært að vera á Grænlandi en þetta var ekki mitt heimili. Landið er fallegt en tungumálið erfitt. Það tók mig marga mánuði að bjóða fólki að fara á klósettið – sem var næstum því það eina sem ég lærði í tungumálinu.“
Fyrsta árið á Íslandi erfitt
Marianne fór aftur til Danmerkur að vinna á taugagjörgæslu og íslenski vinurinn fór til Íslands. Við tók næstum ár í fjarástarsambandi áður en Marianne ákvað að flytja til Íslands. „Upphaflega stóð til að prófa að búa hér í hálft ár en ég hef búið á landinu síðan sumarið 2000. Hér eignaðist ég börnin mín en við eigum fjögur börn og tvö barnabörn. Þrjú elstu börnin eru búsett í Danmörku en sá yngsti er enn í foreldrahúsum,“ segir Marianne sem er stolt af fólkinu sínu og elskar ömmuhlutverkið. Á Íslandi tók við annað erfitt tungumál. „Ég var búin að tryggja mér vinnu á taugalækningadeildinni áður en ég kom til landsins og er enn í dag nátengd deildinni. Það var erfitt til að byrja með enda talaði ég enga íslensku.“ Þegar Marianne er spurð hvernig hafi gengið að fóta sig í starfi er hún fljót til svars: „Ekki vel, fyrsta árið var svakalega erfitt. Það veldur óöruggi þegar maður hefur ekki vald á tungumálinu. Sérstaklega í hjúkrun þar sem stór hluti af starfinu byggir á samskiptum.“
Marianne lýsir því hvernig tungumálið hafi valdið margvíslegum misskilningi. „Ég hélt að ég væri að ná tökum á málinu en svo áttaði ég mig á að ég var langt frá því. Fallbeygingarnar rugluðu mig og sjúklingar virtust stundum hafa mörg nöfn. Til dæmis einu sinni þegar ég svaraði símanum og var sagt frá niðurstöðum röntgenmyndar af Agli – ég kannaðist ekki við sjúkling sem hét Agli, en auðvitað hét hann Egill!“ Hún lýsir svo skondnu atviki tengdu íslenskum orðaforða. „Á dönsku finnst mér orðið „pissa“ ekki fallegt, svo ég leitaði að betra orði í orðabók og spurði sjúkling hvort hann þyrfti að míga. Ég gerði það einu sinni og aldrei aftur.“ Svona ruglingur kemur enn þá fyrir öðru hvoru og það vekur oft kátínu meðal nemenda og samstarfsfólks,“ segir hún hlæjandi.
„Frá upphafi hefur samstarfsfólk mitt, sjúklingar og nemendur, sýnt mér óendanlega þolinmæði og hér á landi hef ég fengið ótal tækifæri. Til dæmis, eftir aðeins hálfs árs vinnu á taugadeildinni, fékk ég hugmynd að gæðaverkefni. Því var afar vel tekið og mér var strax veittur einn vinnudagur í viku til að þróa verkferla. Svona er Ísland – ef maður fær hugmyndir eru boðleiðirnar stuttar og umhverfið oftast mjög hvetjandi.“
Gefandi að leysa flókin vandamál skjólstæðinga
Hvað er það sem heillar Marianne við taugahjúkrun? „Maður þarf að hafa gríðarlega þekkingu á lífeðlisfræði en einnig nota augun, innsæi og kerfisbundið líkamsmat. Taugakerfið stýrir öllu sem gerist í líkamanum. Það er ekki endilega taugakerfið sjálft sem er spennandi, heldur hvernig það stýrir líkamanum. Svo eru það líka oft litlu hlutirnir sem skipta svo gríðarlega miklu máli.“ Ljóst er að Marianne brennur fyrir taugahjúkrun og talar af ástríðu fyrir starfinu.
Hún segir frá því þegar hún var í grunnnámi og hjúkraði parkinsonssjúklingi, sem varð til þess að taugahjúkrun heillaði hana ekki strax. „Ég vissi ekki hvernig ég átti að takast á við flókin vandamál sjúklingsins. Mér fannst það mikil áskorun og fann fyrir vanmáttarkennd,“ útskýrir hún og heldur áfram: „En í dag er einmitt þetta það sem gefur mér mest: Að leysa flókin vandamál. Það er eins og að vera Sherlock Holmes – að finna út hvað hrjáir sjúklinginn og hvernig við getum bætt líf hans. Það er ótrúlegt hvað hægt er að gera með góðum þekkingargrunni og hjúkrunarfræðilegri nálgun.“ Taugahjúkrun er lifandi fag þar sem þekkingunni fleygir fram. Það sá Marianne vel í haust þegar hún var að undirbúa kennslu þriðja árs hjúkrunarnema. „Þegar ég undirbjó kennsluna, sá ég að það þurfti að uppfæra megnið af efninu frá árinu áður. Þetta sýnir hversu hröð þróunin er í faginu. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast í meðferð taugasjúklinga,“ segir Marianne og það er greinilegt að hún nýtur þess í botn að starfa í þessu líflega umhverfi, bæði í háskólasamfélaginu og í klíník.

Stór hluti af starfi hennar á Landspítala felst í því að innleiða nýjungar úr fræðastarfinu. „Nú er að byrja ný lyfjameðferð hér á Landspítala fyrir parkinsonssjúklinga. Í þeirri meðferð er lyf gefið í sírennsli um lítinn plastlegg undir húð. Þetta svipar til insúlíndælu og býður upp á stöðugleika í lyfjagjöf svo sjúklingar upplifi síður sveiflur sem oft fylgja lyfjagjöf um munn. Þetta mun auka lífsgæði sjúklinga. Að það sé boðið upp á þessi meðferðarúrræði á litla Íslandi er í raun ótrúlegt, þetta er ekki meðferð sem er í boði alls staðar,“ lýsir Marianne en erlendir kollegar hennar eru gjarnan hissa á framboði meðferða í þessu fámenna samfélagi. „Ef við tökum önnur dæmi um framfarir sem hafa orðið síðustu áratugi má nefna nýjungar í segaleysandi meðferð og segabrottnám við blóðþurrðarslög. Þessir sjúklingar hafa þörf á sérhæfðu hjúkrunareftirliti. Þessa dagana fer fram mikil vinna við undirbúning opnunar á sérvöktunarherbergi fyrir slagsjúklinga á taugalækningadeildinni. Áður fyrr voru slagsjúklingar oft þungir hjúkrunarsjúklingar en í dag er útkoman margfalt betri vegna betri meðferðar og fleiri úrræða. Talsvert fleiri sjúklingar endurheimta mikilvæga færni, komast aftur heim til sín og jafnvel aftur út á vinnumarkað. Það fyllir mann krafti að sjá slíkar framfarir. Taugahjúkrun er ein af blómstrandi sérgreinum hjúkrunar. Það hefur verið sýnt fram á það endurtekið í Cochrane-safngreiningum að hjúkrunin er lykillinn að betri útkomu taugasjúklinga,“ lýsir Marianne sem hefur séð ótrúlegar framfarir á þeim rúmu 27 árum sem hún hefur starfað við fagið.
Skemmtilegast þegar einfaldar hugmyndir slá í gegn
Sem kennari er Marianne þekkt fyrir að vera mjög hugmyndarík. Hún er skapandi og kemur gjarnan með stórar og skemmtilegar hugmyndir að til dæmis vísindarannsóknum og leiðir til að nýta þær í klínísku starfi. „Ég held að ég fái gjarnan útrás fyrir listræna sköpunargleði við kennslu og rannsóknarstörf.“ En hvaðan fær hún þessar hugmyndir? „Hvaðan, það er frekar hvenær ég fæ þær en það gerist sjaldnast þegar ég sit við tölvuna. Frekar þegar ég er í fríi og ekki með penna og pappír við hönd, þá spretta hugmyndirnar fram. Stundum skrifa ég heilu greinarnar í huganum þegar ég er á ferðalagi, til dæmis bara á ströndinni. Þess vegna er ég yfirleitt með upptökutæki við höndina. Auðvitað eru hugmyndirnar mínar misgóðar sem endurspeglast líka í heimilislífinu. Ég er til dæmis of mjög hugmyndarík þegar kemur að eldamennsku og framkvæmi ýmsar tilraunir sem heppnast misvel. Á matseðlinum heima hef ég m.a. boðið upp á kanilsteiktar gulrætur en mér fannst að kanill og gulrætur væru góð samsetning. En annað kom á daginn, þetta var nærri óætt. Sama lögmál gildir um aðrar hugmyndir sem maður fær, þær eru misgóðar. Sumum hugmyndum hrindir maður í framkvæmd en aðrar verða aldrei að veruleika. En skemmtilegast er þegar einfaldar hugmyndir slá í gegn og verða að einhverju stórkostlegu,“ segir hún.
Marianne hafði um nokkra hríð stefnt að framhaldsnámi í hjúkrunarfræði. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika erlendis, s.s. sérhæft meistaranám í taugahjúkrun í Kanada, áttaði hún sig á að framtíð hennar yrði hér á landi. Í kjölfarið fór hún að afla upplýsinga um hjúkrunarmenntun á Íslandi. „Þar kom í ljós að hjúkrunarfræðideildin í Háskóla Íslands skoraði hátt á alþjóðlegum mælikvörðum og þar með ákvað ég fara í framhaldsnám hér. Þetta var líka kjörið tækifæri fyrir mig til að bæta íslenskukunnáttuna og að stækka tengslanetið. Þetta var hárrétt ákvörðun hjá mér.“
Hún segir að íslenskan hafi verið áskorun fyrst um sinn og að það hafi tekið tíma að koma sér upp akademískum orðaforða. „Að sitja aðferðafræðinámskeiðin á íslensku var upplifun. Ég skildi ekki baun því íslenskan sem ég kunni þá var í grunninn íslenska sem er töluð á sjúkrahúsi en heima tölum við fjölskyldan alltaf dönsku. Það er mér eftirminnilegt einu sinni þegar ég kom heim og sagði við manninn minn að ég ætlaði að skrifa doktorsritgerð um gaumstol þá sagði hann: „Ha! Nei, það er ekki til, nú ertu að búa til orð“. Ég hafði ekki tilfinningu fyrir því hvort þetta voru orð sem þekktust út í bæ eða bara inn á sjúkrahúsi.“
Marianne leit á það sem mikinn kost að fá frelsi í meistaranáminu til að sérhæfa sig á sínu áhugasviði. „Meistaranámið gaf mér mikið. Kosturinn við námið er að hér velur maður sér viðfangsefni til að skrifa um. Það er alls ekki sjálfsagt í nágrannalöndunum. Svo fékk ég að vinna við viðfangsefnið eftir útskrift sem er heldur ekki sjálfsagt. Ég á til dæmis vinkonu í Danmörku sem hefur sérhæft sig í barnahjúkrun en ekki fengið vinnu við það heldur starfar við taugahjúkrun. Þetta er annar stór kostur við Ísland.“
Beint í doktorsnám
Eftir krefjandi meistaranám sem hún sinnti meðfram fjölskyldulífi og starfi á tímum fjármálakreppunnar sá hún fyrir sér að bíða með að skrá sig í doktorsnám. Hún endaði þó á að halda áfram að þróa sig sem fræðimaður. „Ég var í vafa um hvort ég ætti að fara strax í doktorsnám en fékk doktorsstyrk frá Eimskipasjóði Háskóla Íslands sem var í mínum huga skýr hvatning um að ég ætti að halda áfram í námi. Ég fékk í doktorsnáminu fimm frábæra leiðbeinendur í hjúkrunarfræði, læknisfræði og heimspeki sem gáfu mér góða leiðsögn en líka frelsi til að þróast. Ég hef haldið tengslum við heimspekina og var til dæmis nýlega lykilfyrirlesari á ráðstefnu í fyrirbærafræði um hvernig maður öðlast innsýn í reynslu fólks sem ekki getur tjáð sig á fullnægjandi hátt um líðan sína, s.s. börn eða einstaklinga með alzheimers-sjúkdóminn, gaum- eða málstol. Eftir doktorsnámið fékk ég post-doc-styrk frá Háskóla Íslands og var fyrsti hjúkrunarfræðingurinn hérlendis sem hlaut slíkan styrk. Þar hélt ég áfram með rannsóknir á gaumstoli. Meðfram því vann ég áfram á spítalanum.“
Blandar saman akademíu og klínik
Eftir doktorsnámið hefur Marianne unnið við akademíuna en einnig sinnt klínískri vinnu. Hún hefur þörf fyrir að sinna báðum heimum og stendur betur að vígi þegar hún sinnir störfunum jafnt. „Það er gjarnan kallað á mig til ráðgjafar þegar framkvæma þarf sérhæft mat á taugasjúklingum. Mér finnst gefandi að fara til þeirra sjúklinga sem þurfa á mér að halda. Ég hef alltaf verið að sinna þessari klínísku vinnu þó að ég hafi fjarlægst deildarvinnu. Ég vinn að gæðamálum á spítalanum og er forstöðumaður fræðasviðs. Til dæmis hef ég verið að kortleggja þörf á taugahjúkrunarfræðingum og hef markvisst reynt að laða fólk að og hvatt áhugasama til að sækja sér framhaldsmenntun. Nokkrir hafa farið þá leið og haldið áfram í sérfræðinám og starfa núna á deildinni sem sérfræðingar í hjúkrun. Ég hef sterka þörf fyrir að sinna bæði akademíska starfinu og því klíníska og það setur af stað jákvæða hringrás. Um leið og ég er mikið í klíník þá fæ ég fullt af hugmyndum og skrifa miklu meira, sem skilar sér í kennslu og meiri rannsóknarvirkni. Eins og staðan er núna þá er ég í mjög góðri stöðu til að tvinna þetta saman.“

Ísland frábær staður fyrir rannsóknir
Marianne finnst hún vera í þeirri forréttindastöðu að fá að stunda vísindarannsóknir á Íslandi. Hún segir að smæðin bjóði upp á stuttar boðleiðir og tækifæri til að komast yfir gögn sem erfitt getur verið að komast yfir í stærri samfélögum. „Ég sé Ísland sem Mekka vísindarannsókna. Stundum finnst fólki Ísland of lítið en hvergi í heiminum er hægt að sjá áhrifin á samfélagið í heild sinni eins vel. Það oft hægt að nálgast tölur og gögn á Íslandi sem ekki er hægt erlendis. Ég hef tekið þátt í að vekja athygli á einkennum heilaslags í samfélaginu. Neyðarlínan gæti sem dæmi gefið upplýsingar um hversu mörg símtöl koma til þeirra þar sem grunur er um heilaslag fyrir og eftir vitundarvakninguna. Á sama tíma væri hægt að skoðað bráðamóttökur á landsvísu og sjá hversu langur tími líður frá fyrstu einkennum heilaslags og þar til leitað er á sjúkrahús. Í Bandaríkjunum gæti ég aldrei fengið þessar upplýsingar því kerfið þar er svo margfalt flóknara. Við erum nær eina landið sem getur gert þetta. Fólk gleymir forréttindunum sem felast í því að búa í litlu landi. Þegar maður ferðast mikið þá sér maður hvað við stöndum okkur vel og þegar eitthvað er í ólestri er tækifæri til að breyta hlutunum á styttri tíma en í flestum öðrum löndum.
Mínar rannsóknir hafa almennt haft klíníska skírskotun og ég er virk í alþjóðlegri samvinnu t.d. er ég í stjórn Nordic Stroke Society og er fyrsti hjúkrunarfræðingurinn utan Bandaríkjanna sem var boðið inn í International Committee of American Heart Association sem býr til stefnumótun fyrir slagmeðferð. Ég þrífst vel með fólki sem hefur sama áhugasvið og ég bæði hvað varðar aðferðafræði og taugasjúkdóma.
Framtíðin á íslandi
Marianne hefur átt farsælan feril sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi og sér fyrir sér að halda áfram að sinna starfi sínu hér á landi. „Ég fékk prófessorstöðu í HÍ fyrir um einu og hálfu ári. Ég er mjög ánægð með starfsferilinn. Bæði í akademíunni en líka á Landspítala. Ég hef eignast gott samstarfsfólk og verið heppin með fyrirmyndir. Fólk sem hvetur mig áfram þegar ég er við það að gefast upp. Það kemur fyrir hjá okkur öllum öðru hvoru. Þetta er ekki alltaf dans á rósum. Ég get ekki ímyndað mér að vinna í Danmörku. Mér líður vel á Íslandi og finnst skemmtilegt að vinna hér. Íslendingar eru góðir samstarfsmenn, þó að þeir séu ekki góðir í að fylgja leiðbeiningum þá eru þeir góðir í mörgu öðru. Hér á ég tengslanet og hér eru ótal tækifæri í boði. Þó að tengslanet mitt teygi sig orðið um víða veröld, þá eru það tengslin á Íslandi sem gefa mér mest,“ segir Marianne að lokum.