Fara á efnissvæði
Frétt

Stór rannsókn á geðheilbrigði

WHO stendur fyrir stórri rannsókn á geðheilbrigði heilbrigðisstarfsfólks. Hjúkrunarfræðingar fá könnunina senda í tölvupósti.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, vinnur nú að stórri rannsókn á geðheilbrigði heilbrigðisstarfsfólks í 29 Evrópulöndum.

Markmið rannsóknar er að auka skilning á þáttum sem hafa áhrif á líðan í vinnu sem leiða til verri geðheilsu. Niðurstöður rannsóknarinnar verða nýttar til þess að þróa áætlanir og leiðir til þess að sporna við streitutengdum veikindum með von um að heilbrigðisstarfsfólk haldi heilsu og sé fært um að sinna störfum sínum.

WHO hefur beðið Fíh um að koma spurningakönnun á framfæri við hjúkrunarfræðinga á Íslandi. Hægt er að svara á íslensku. Könnunin verður send í tölvupósti til allra starfandi hjúkrunarfræðinga sem eru með skráð netfang hjá Fíh, ekki þeirra sem eru á lífeyri.

Könnunin verður opin til 31. desember 2024 og tekur það rúmar 12 mínútur að klára hana.

Könnunin tekur til fjölda atriða sem tengjast geðheilbrigði en einnig til samfélagslegra þátta, þar á meðal álags á vinnustað.

Þátttaka íslenskra hjúkrunarfræðinga skiptir miklu máli til að gera niðurstöðurnar marktækar. Öll svör eru nafnlaus og er ekki hægt að rekja þau til einstaklinga. Niðurstöðurnar verða birtar í skýrslu WHO sem kemur út í júní á næsta ári.