Fara á efnissvæði
Viðtal

Transteymi fullorðinna veitir kynstaðfestandi þjónustu

Vaktin mín: Sigríður Jóna Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og teymisstjóri Transteymis fullorðinna á Landspítala. Birt í 1. tbl. Tímarits hjúkrunarfræðinga 2024.

Umsjón og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

„Áður en ég lýsi einni vakt þar sem ég starfa langar mig að segja aðeins frá teyminu mínu, en ég starfa hjá Transteymi fullorðinna á Landspítala sem sinnir matsferli og meðferð einstaklinga með kynama. Samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 skal á Landspítala starfa teymi sérfræðinga um kynvitund og breytingu á kyneinkennum, annars vegar fyrir fullorðna og hins vegar fyrir börn.

Við sem störfum í teyminu mætum alls konar áskorunum eins og svo margir sem starfa í heilbrigðisþjónustu en okkar helstu áskoranir núna eru þær að það er aukning á nýjum beiðnum í Transteymið og svo er þjónustan sem við veitum á mörgum stöðum innan spítalans, hún er ekki öll á einum stað. Hluti þjónustunnar er til að mynda veitt á Kleppi, svo er teymið einnig með þjónustu í Fossvogi, á Eiríksgötu, á Grensás og á fleiri stöðum.

Það stendur núna yfir vinna við að stofna Transmiðstöð og á hún að þjónusta fullorðna og í framtíðinni börn. Þörfum trans fólks á að vera mætt af þverfaglegu teymi á þessari nýju Transmiðstöð og lagt verður upp með teymisvinnu. Við sem komum að þessari vinnu viljum auðvitað notast við gagnreynd vinnubrögð, það getum við gert með skýru verklagi, með því að notast við gagnreyndar heimildir við uppbyggingu þjónustunnar og með því að sækja fyrirlestra og ráðstefnur. Á miðstöðinni verður ekki einungis veitt meðferð heldur á hún líka að sinna fræðsluhlutverki, fyrir þjónustuþega og þeirra fjölskyldur og vini, aðra heilbrigðisstarfsmenn og fyrir almenning. Við leggjum líka upp úr mikilvægi þess að vera í góðum samskiptum við Trans Ísland og Samtökin´78 til að bæta okkar þjónustu.

Fyrsti hjúkrunarfræðingurinn í fullu starfi hjá Transteyminu

Margt hefur orðið að verki á undanförnum misserum; verið er að byggja upp teymið, félagsráðgjafi var ráðinn í fullt starf í október 2022, ég var ráðin í fullt starf í júní á síðasta ári og núna í febrúar kemur heimilislæknir í fullt starf inn í teymið en hún er með sérþekkingu á þjónustu við trans fólk. Í teyminu eru einnig sálfræðingur í 70% stöðu og fleiri sérfræðingar í minni stöðugildum svo sem sérnámslæknir í geðlækningum, talmeinafræðingur, innkirtlalæknir, lýtalæknir og fleiri sérfræðingar. Saman vinnum við svo að því að veita kynstaðfestandi þjónustu við okkar skjólstæðinga og þess má geta að við erum í góðu samstarfi við kollega okkar í Transteymi BUGL.

Ég er svo heppin að fá að vera fyrsti hjúkrunarfræðingurinn sem sinnir Transteyminu í fullu starfi en enginn hjúkrunarfræðingur hefur verið starfandi áður í skilgreindu hlutfalli hjá Transteyminu. Þetta hefur verið mjög gefandi og skemmtileg reynsla og mikill lærdómur. Ég var ráðin í teymið til að vinna þvert á teymið; fyrir geðsvið, innkirtlalækningar og skurðlækningar og því er starfið afar fjölbreytt.

Það eru mjög spennandi tímar núna, í febrúar fluttum við starfsemina frá Kleppi og yfir á Landspítala í Fossvogi, sem er skref í áttina að því að flytja þjónustuna frá geðsviði, enda er það að vera „trans“ ekki geðsjúkdómur. Markmiðið er svo einn góðan veðurdag að flytja þjónustuna frá Landspítala. Búið er að taka mörg skref í rétta átt og höldum við því ótrauð áfram veginn.

Annasöm vakt hjúkrunarfræðings í Transteymi

Það sem gerir starfið skemmtilegt er að engir tveir dagar er eins. Þegar þetta er skrifað hef ég vinnuaðstöðu á mörgum stöðum spítalans; við Eiríksgötu, á Kleppi og í Skaftahlíðinni. Í dag byrja ég vinnudaginn á Kleppi. Mér finnst gott að vera mætt snemma á vakt og byrja morguninn á því að fá mér morgunmat við tölvuna þar sem ég fer yfir tölvupósta teymisins og skilaboð sem hafa borist í gegnum Heilsuveru. Svo fer ég og heilsa upp á Alexander sem er félagsráðgjafi teymisins. Við fáum okkur kaffibolla og förum yfir verkefni dagsins.

Eftir spjallið við Alexander fer ég að bóka nýkomur í teymið. Ég tek svo stöðuna á þeim sem eru í hormónameðferð, geri beiðnir í blóðprufur, bið fólk að mæta í blóðprufu og hringi svo nokkur símtöl.

Því næst mæti ég á fund með verkefnastjóra nýrrar Transmiðstöðvar til að skipuleggja flutning starfseminnar á nýjan stað. Eftir það mæti ég í viðtöl með sérnámslækni teymisins og þegar þau eru afstaðin er fundur með söguþjónustu til að undirbúa flutning teymisins í Fossvog.

Þá er komið að hádegismat og ég nýti þann tíma til að fara í Fossvoginn og skoða nýtt húsnæði teymisins sem skartar 5 stjörnu útsýni því við verðum hátt uppi og sjáum yfir borgina.

Eftir hádegi þarf ég taka nokkur símtöl, meðal annars við kollega hjá Transteymi BUGL, gott upplýsingaflæði er nauðsynlegt til að allt gangi upp fyrir skjólstæðingana. Ég undirbý mig því næst fyrir næsta fjarfund með kollegum í transteymum á meginlandi Evrópu. Fer svo aftur til baka á Klepp og leiði mánaðarlegan fund teymisins þar sem allir fagaðilar sem viðkoma teyminu koma saman og ræða málin. Eftir þann fund er þessum vinnudegi lokið, miklu var áorkað eins og flesta vinnudaga enda nóg að gera hjá transteyminu og spennandi tímar fram undan.

Að lokum vil ég koma því á framfæri að það er mjög mikilvægt er að öll heilbrigðisþjónusta sé kynstaðfestandi sem vísar til þess að trans fólk á að geta leitað sér heilbrigðisþjónustu án þess að upplifa fordóma og hræðslu. Virða nafn og fornafn sem fólk kýs að nota þó að það sé ekki það sama og er skráð í Þjóðskrá.

Svo skora ég öll á að bæta við fornöfnin sín í undirskriftinni sinni í tölvupósti.

Sigríður Jóna Bjarnadóttir (hún/she).