Heilbrigðisstarfsfólk veitir lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu á átakasvæðum um allan heim án tillits til þjóðernis, trúarbragða eða stjórnmálaskoðana. Það setur sig í mikla hættu og því miður eru mörg dæmi um heilbrigðisstarfsfólk sem hefur særst eða látið lífið í þessum átökum. Allar stríðandi fylkingar þurfa að fylgja alþjóðalögum, þar á meðal ákvæðum Genfarsáttmálans um aðgang almennra borgara og særðra að heilbrigðisþjónustu. Einnig skal það áréttað að stríðandi fylkingum er óheimilt að misnota merki heilbrigðisstarfsfólks.
Fíh tekur undir yfirlýsingu Alþjóðasamtaka heilbrigðisstarfsfólks, WHPA, sem og ICN, um að hvetja stríðandi fylkingar til að láta af öllum aðgerðum sem stefna lífi almennra borgara og heilbrigðisstarfsfólks í hættu. Enn fremur hvetur Fíh íslensk stjórnvöld til að koma þessum skilaboðum áleiðis til stríðandi fylkinga, aðgangur að heilbrigðisþjónustu eru mannréttindi og árásir á almenna borgara og heilbrigðisstarfsfólk eru óásættanlegar.