Fara á efnissvæði
Viðtal

Tveir hjúkrunarfræðingar sinna 2.000 umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi

Hjúkrunarfræðingarnir Elsa Hrund Jensdóttir og Aníta Aagestad sinna umsækjendum um alþjóðlega vernd hér á landi.

Viðtal og myndir: Sigríður Elín Ásmundsdóttir

Í lok síðasta árs hófu tveir hjúkrunarfræðingar, sem sinna umsækjendum um alþjóðlega vernd, störf hjá Vinnumálastofnun, en umsækjendur um alþjóðlega vernd eru um 2.000 talsins hér á landi. Hjúkrunarfræðingarnir Elsa Hrund Jensdóttir og Aníta Aagestad standa vaktina Í Domus Medica þrjá daga í viku og svo eru þær með vakt á Ásbrú tvo daga vikunnar því stór hópur umsækjenda býr þar.

Blaðamaður hitti Elsu á skrifstofu þeirra Anítu sem er á fimmtu hæð í gamla Domus Medica-húsinu og fékk hana í spjall um þetta þarfa og áhugaverða verkefni. Hún segir vinnudagana og verkefnin fjölbreytt og að ólíkir menningarheimar og mismunandi upplifanir af heilsu og veikindum skapi áhugaverðar áskoranir. Elsa starfaði á barnaspítala í Svíþjóð, þar sem hún kynntist því að sinna innflytjendum. Þar fékk hún áhugann og skellti sér í kjölfarið í meistaranám í þróunarfræðum við mannfræðideild HÍ, sem nýtist henni sannarlega vel í starfi í dag.

„Áður var þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd á borði Útlendingastofnunar – þjónustan og ákvarðanatakan og allt heila ferlið heyrði undir Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneytið. Í júní í fyrra var þjónustan svo færð undir Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið. Mér skilst að það hafi lengi verið kallað eftir heilbrigðisstarfsfólki í þjónustuteymin sem fékkst svo loksins í gegn síðastliðið haust. Við Aníta sóttum um og byrjuðum báðar þann 1. desember.“

Upplifun heilbrigðisstarfsfólks sem þjónustar flóttafjölskyldur er áhugavert verkefni

Elsa starfaði áður í fimm ár á Heilsugæslunni í Salahverfi í Kópavogi og þar áður í Stokkhólmi. Hvers vegna ákvað hún að sækja um stöðu hjúkrunarfræðings hjá Vinnumálastofnun? „Ég hef lengi haft áhuga á þessum málaflokki og kynntist því að þjónusta þennan hóp skjólstæðinga í Svíþjóð. Þar vann ég á bráðamóttökunni á Astrid Lindgren-barnasjúkrahúsinu og þangað komu mun fleiri innflytjendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd en ég átti að venjast hérna heima. Mér fannst þessi hópur mjög áhugaverður – komandi frá ólíkum menningarheimum og með mismunandi upplifun á heilsu og veikindum. Þetta fannst mér áhugaverð áskorun í starfi og ákvað að fara í meistaranám í þróunarfræðum við Háskóla Íslands.

Geir Gunnlaugsson læknir var leiðbeinandi minn í meistaraverkefninu og saman stýrðum við verkefninu inn á hnattræna heilsu, sem hann er sérfróður um. Í verkefninu skrifaði ég um upplifun heilbrigðisstarfsfólks þegar kemur að þjónustu við flóttafjölskyldur í heilbrigðiskerfinu og tók viðtöl við hjúkrunarfræðinga og lækna bæði hérna heima og í Svíþjóð. Mig langaði að vita hvernig kollegar okkar upplifa að mæta þessum hópi og hvað þeim finnst vanta í námið til að búa fagfólk undir þessa áskorun.“

Elsa segir að meistaranámið hafi nýst henni vel í nýju starfi og þá leikur okkur forvitni á að vita hverjar niðurstöður hennar voru – hvað finnst heilbrigðisfólki vanta? „Það vantar að bæta inn í nám hjúkrunarfræðinga og lækna fögum sem fjalla um fjölmenningu og hvernig best er að nálgast og sinna ólíkum menningarhópum. Það vantar líka verklag, að mál fólks á flótta fari í ákveðinn farveg. Rannsóknin var gerð á árunum 2015-2016 og ég vona að eitthvað hafi breyst til batnaðar á þessum árum með auknum fólksflutningum norður á bóginn.“

Veita skilgreinda nauðsynlega heilbrigðisþjónustu

Elsa segir að umsækjendur um alþjóðlega vernd í þjónustu Vinnumálastofnunar hafi flestir verið hér í nokkra mánuði en alveg upp í einhver ár. „Við erum með móttöku alla virka daga, sem er eins og opin hjúkrunarmóttaka. Erum hér í Domus Medica þrjá daga í viku og tvo daga í viku erum við með móttöku á Ásbrú. Fólk kemur til okkar ef það óskar eftir heilbrigðisþjónustu, við sjáum um að koma því á réttan stað á réttum tíma. Oft getum við leyst málin hjá okkur, ráðlagt um veikindi og fylgst með blóðþrýstingi og blóðsykri svo eitthvað sé nefnt. Það er okkar að meta hvaða þjónusta er nauðsynleg og þolir ekki bið og hvað getur beðið. Við veitum skilgreinda nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna en börnin eiga rétt á sömu læknisþjónustu og íslensk börn. Það sem getur beðið er svo gjarnan skoðað þegar fólk fær íslenska kennitölu og dettur inn í sjúkratryggingakerfið.“

Aðspurð segir Elsa að þessi hópur sé ekki kominn með íslenska kennitölu, sem geti skapað ákveðin vandamál í kerfinu. „Okkur hefur samt tekist að vinna úr því. Við höfum aðgang að Sögukerfinu og getum átt samskipti við aðrar heilbrigðisstofnanir. Samskiptin við aðra í heilbrigðiskerfinu ganga vonum framar og okkur gengur vel að leysa flest þau vandamál sem koma upp.“

Útsýnið á skrifstofunni er einstakt.

Tungumálaörðugleikar og menningarmunur hægir oft á þjónustunni

Hvernig er þá hefðbundinn vinnudagur hjá þér? „Dagarnir eru ólíkir en uppleggið þó oftast það sama. Við mætum átta á morgnana og móttakan hefst klukkan níu. Við erum yfirleitt að vinda ofan af verkefnum frá deginum áður fyrsta klukkutímann og svara tölvupóstum. Vaktin á svo að vera milli níu og hálftólf en dregst oft fram yfir hádegi. Við tökum á móti svona 15 manns hér í Domus Medica daglega en á Ásbrú mæta oft fleiri enda býr þar stór hópur; suma daga hittum við allt að 30 manns þar.“ Þá liggur beinast við að spyrja hvort að það dugi að hafa bara tvo hjúkrunarfræðinga í að sinna þessu verkefni og þessum stóra hópi þar sem tungumálaörðugleikar og menningarmunur gerir þjónustuna oft hægari en ella? „Nei, það er ekki nóg. Okkur vantar hjúkrunarfræðing í hópinn og erum einmitt að setja í loftið auglýsingu á næstu dögum. Við auglýsum hér með eftir áhugasömum einstaklingi í litla teymið okkar.“

„Heilsugæslan er með göngudeild sóttvarna á hæðinni fyrir neðan í Domus Medica en þar þurfa allir sem hingað til lands koma að fara í fyrstu skoðun sem er lögbundin heilsufarsskoðun. Þar er skimað fyrir smitsjúkdómum og farið yfir heilsufarssögu, bólusetningar og annað og ef þar koma fram upplýsingar um flókinn heilsufarsvanda eða annað sem ekki þolir bið erum við látnar vita. Við hjálpum þá fólki að komast áfram í úrræði og reynum að halda utan um það. Það er gott samstarf milli okkar og teymisins á fjórðu hæðinni og við leitum hvert til annars ef okkur vantar aðstoð eða upplýsingar.“

Mikilvægt að hlusta án þess að dæma

Þótt það sé stórt skref í rétta átt að hafa hjúkrunarfræðinga í þjónustuteyminu segir Elsa en að hægt sé að gera betur:

„Okkur langar að þjónusta hópinn miklu betur því margir okkar skjólstæðingar eiga við flókinn heilsufarsvanda að stríða og eru með erfiða reynslu og áföll í farteskinu. Það vantar fleira fagfólk til að sinna þessum hópi en það er mannekla á flestum stöðum í kerfinu. Það eru allir að gera sitt besta en það getur verið erfitt að sinna fólki, sem virkilega þarf á heilbrigðisþjónustu að halda og er oft með meiri væntingar til velferðarkerfisins þegar það kemur hingað. Það sér fyrir sé að það sé að koma í betri aðstæður og verður hissa þegar biðtíminn eftir að komast að hjá sérfræðingi er oft margir mánuðir. Stærsti hluti þessa hóps vill fá að vinna hér á landi og leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Þeim finnst aðgerðarleysið erfitt og til okkar hafa komið margir með heilbrigðismenntun; læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraþjálfarar til dæmis, og boðið fram krafta sína í sjálfboðavinnu. Þetta er þungt og pólitískt flókið en þarna er í rauninni ónýtt vinnuafl. Það væri gott ef það tæki mun styttri tíma að afgreiða umsóknirnar en við höfum ekki skoðanir á því hver á að fara og hver á að vera, það er ekki í okkar verkahring. Við sinnum bara okkar fólki eins vel og við getum og uppskerum mikið þakklæti. Þetta er gefandi og skemmtilegt starf, við hittum fólk úr ólíkum menningarheimum og ég hef lært mikið. Við erum með fyrir fram mótaðar hugmyndir um hvað heilsa og heilbrigði er og hvernig heilbrigðiskerfi á að vera en það er ekki endilega sama mynd og einstaklingur frá Sómalíu hefur.

Ég skil ekki alltaf menningu og siði annarra en það er mikilvægt að hlusta og bera virðingu fyrir ólíkum menningarheimum og siðum. Vera með opinn huga og meðtaka án þess að dæma, því við erum öll með eitthvað í bakpokanum. Þetta gerir mig að betri hjúkrunarfræðingi. Það væri eflaust gagnlegt að bjóða hjúkrunarfræðingum upp á þjálfun í því hvernig hægt er að mæta fólki frá ólíkum menningarheimum á jákvæðan hátt. Við erum ekki öll eins og það er svo mikill kostur ef við sinnum þessum hópi með opnum huga.“

Varðandi tungumálaörðugleika segir hún að þær stöllur notist mikið við Language line og fái aðstoð frá samstarfsfólki, en það sé stærsta áskorunin í starfinu. „Stundum er fólk að reyna að segja manni frá veikindum og vanlíðan í smáatriðum og þá er erfitt að finna vanmáttinn og geta ekki klárað málin með því. Þá sendum við fólk oft áfram í tíma hjá lækni með túlki. Aðbúnaðurinn er ekki góður, úrræðin eru neyðarþjónusta, sem ekki eru ætluð til langs tíma.

Fólki líður auðvitað sjaldnast vel í þessum aðstæðum; að búa með mörgum ókunnugum í litlu rými, mega ekki vinna og hafa lítið milli handanna. Ferlið þyrfti að ganga hraðar fyrir sig svo fólk geti haldið áfram með líf sitt. Flest eru þau svo þakklát fyrir öryggið hér á landi og friðinn. Það er oft það sem fólk þráir framar öllu,“ segir hún og við látum það vera lokaorðin.