Fara á efnissvæði
Frétt

Hver og ein þjóð þarf að mennta sína hjúkrunarfræðinga

Breska ríkisútvarpið BBC fjallaði ítarlega um hjúkrunarfræðinga sem flytja til Bretlands frá Ghana, landi sem má illa við að missa hjúkrunarfræðinga frá störfum.

Að mati Alþjóðaráðs hjúkrunarfræðinga (ICN) ríkir stjórnleysi í ráðningum á hjúkrunarfræðingum frá fátækari ríkjum til ríkari landa heims. Howard Catton, framkvæmdastjóri ICN, ræddi við breska ríkisútvarpið BBC í vikunni um hnignun heilbrigðiskerfis Ghana í Afríku vegna svokallaðs vitsmunaleka þar sem hjúkrunarfræðingar þaðan eiga auðvelt með að ráða sig í störf annars staðar í heiminum.

Afstaða ICN er að hver og ein þjóð mennti sína eigin hjúkrunarfræðinga og haldi þeim í vinnu. Vissulega á fólk að geta flutt á milli landa ef það vill það en lönd heimsins þurfa að vera sjálfbær þegar kemur að fjölda hjúkrunarfræðinga. Er þetta alveg í takt við yfirlýsingar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).

Samkvæmt ítarlegri umfjöllun BBC hafa rúmlega 1.200 hjúkrunarfræðingar flutt frá Ghana til Bretlands árið 2022. Bresk heilbrigðisyfirvöld hafna því að sérstaklega sé leitað til þróunarríkja eftir starfsfólki en með samfélagsmiðlum er auðvelt að nálgast mikið magn atvinnuauglýsinga eftir hjúkrunarfræðingum vegna stöðugs mönnunarvanda, og á sama tíma er mikill efnahagsvandi í Ghana.

„Ég met það sem svo að þetta sé stjórnlaust,“ sagði Catton við BBC. „Í dag eru sex til sjö háþróuð ríki að ráða inn hjúkrunarfræðinga frá viðkvæmum löndum sem mega illa við að missa hjúkrunarfræðinga.“

Perpetual Ofori-Ampofo, formaður Félags hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í Ghana, sagði stjórnvöld þar í landi ættu að gera meira til að halda hjúkrunarfræðingum í störfum í Ghana.

Helmingur útskriftarárgangsins fluttur

Gifty Aryee, hjúkrunarforstjóri á Greater Accra Regional Hospital í Ghana, sagði að gjörgæsludeild spítalans hafi misst tuttugu hjúkrunarfræðinga til Bretlands og Bandaríkjana á síðastliðið hálft ár og staðan á deildinni eftir því. „Þetta hefur hræðileg áhrif á gæði þjónustunnar. Við getum ekki tekið við fleiri sjúklingum, það myndast tafir og fólk deyr,“ sagði hún. Annar hjúkrunarfræðingur taldi að helmingur útskriftarárgangs síns væri fluttur úr landi, sjálfur væri hann alvarlega að íhuga að flytja annað.

Sama staða var uppi á teningnum á Cape Coast Municipal Hospital. „Allir hjúkrunarfræðingar með reynslu eru farnir. Það skiptir engu máli þó stjórnvöld bregðist við og útskrifi fleiri,“ sagði Caroline Agbodza aðstoðarframkvæmdastjóri hjúkrunar.

Rauði listinn

Ghana er eitt 55 landa sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) metur sem viðkvæm vegna skorts á hjúkrunarfræðingum. Haldið er utan um listann, sem kallaður er Rauði listinn, til að ríkari lönd viti að ekki eigi að ráða hjúkrunarfræðinga þaðan. Samkvæmt BBC hafa bresk stjórnvöld verið að skoða möguleikann á að borga Ghana fyrir hvern hjúkrunarfræðing sem ráðinn er þaðan, nú þegar sé slíkt samkomulag í gildi við Nepal.

Catton sagði slík samkomulög, um að borga löndum fyrir hjúkrunarfræðinga, ekki vera nóg. „Þannig er verið að búa til yfirbragð siðferðislegra vinnubragða en það endurspeglar ekki hinn raunverulega kostnað að missa hjúkrunarfræðinga úr landi.“