Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um aðgerðaráætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar framkomnum drögum að aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025 enda mikilvægt í styrkingu og eflingu þjónustunnar á landsvísu.

Efni: Umsögn um drög að aðgerðaráætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar framkomnum drögum að aðgerðaáætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga til ársins 2025 enda mikilvægt í styrkingu og eflingu þjónustunnar á landsvísu.

Í drögum að aðgerðaáætluninni, undir lið 3 um fólkið í forgrunni er talað um mikilvægi þess að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar með vel menntuðu, hæfu og áhugasömu fólki. Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og hafa víðtæka þekkingu og reynslu af heilbrigðiskerfinu. Þeir hafa til fjölda ára menntað sig sérstaklega í grunn- og framhaldsnámi í sjúkraflutningum og starfa sem slíkir, samhliða hjúkrunarstörfum, víða um landið. Á þetta sérstaklega við hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni og eru hjúkrunarfræðingar þar einnig starfandi sem sjúkraflutningsmenn við fjórar heilbrigðisstofnanir af sex, þ.e. Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Þessi þróun er af hinu góða og bæði styrkir og eflir þjónustuna á landsvísu en það skiptir mjög miklu máli að fullnægjandi menntun og hæfni þeirra sem starfa við sjúkraflutninga sé til staðar þar sem bráðaþjónusta og sjúkraflutningar eru öllu jöfnu ekki eins tíðir á smærri stöðum og í þéttbýli.

Hægt er að samnýta vinnu hjúkrunarfræðinga, sem hafa daglega reynslu af störfum innan heilbrigðiskerfisins, við bráðaþjónustu og sjúkraflutninga á hinum veiku eða slösuðu til frekari meðferðar. Gæði og öryggi þjónustunnar er betur tryggt með vel menntuðu og hæfu fólki eins og hjúkrunarfræðingum með nám í sjúkraflutningum. Þeir hafa til þess þjálfunina og bíður þetta upp á meiri samfellu og hagkvæmari þjónustu.

Þetta er einnig í samræmi við það sem m.a. annars gerist í nágrannalöndum okkar. Sem dæmi má nefna Svíþjóð en þar starfa hjúkrunarfræðingar við sjúkraflutninga og bráðaþjónustu á vettvangi enda nýtist menntun þeirra og reynsla mjög vel, sem og tenging við heilbrigðiskerfið og veitir meiri samfellu í þjónustunni.

Vert er að geta að nú þegar hafa nokkrir bráðatæknar lært hjúkrunarfræði og starfa jafnvel við bæði fögin í dag.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu varðandi aðgerðaráætlun fyrir bráðaþjónustu og sjúkraflutninga.