Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um breytingu á lögum (heimilisofbeldi)

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr.34/2012 (heimilisofbeldi), mál nr.21/2023.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lýsir yfir ánægju sinni með drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 34/2012 (heimilisofbeldi). Uppræting ofbeldis gegn konum og heimilisofbeldi í garð einstaklinga af öllum kynjum verður að vera leiðarljósið og bæta þarf verklag í tengslum við miðlun upplýsinga þegar kemur að tilkynningaskyldu heilbrigðisstarfsfólks. Nauðsynlegt er að breyta núgildandi ákvæði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsfólk en það er ekki nægilega afgerandi né skýrt að mati Fíh. Með þessari tillögu til lagabreytingar auðveldar það heilbrigðisstarfsfólki að tilkynna um slík mál. Jafnframt er nauðsynlegt að tilkynningarnar fari fram í nafni heilbrigðisstofnananna en ekki einstaka heilbrigðisstarfsfólks.