Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um búsetuöryggi í dvalar og hjúkrunarrýmum

Umsögn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um þingsályktunartillöguna Búsetuöryggi í dvalar og hjúkrunarrýmum. 115. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita umsögn þingsályktunartillögu um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

Hjúkrun er og verður meginþáttur öldrunarþjónustu. Því er nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar séu í forsvari og fararbroddi þegar kemur að hjúkrun aldraðra. Þeim ber að tryggja að aldraðir fái þá hjúkrun og endurhæfingu sem þeir þarfnast, hvort heldur er í heimahúsum, heilsugæslu, á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum.

Vöntun á hjúkrunarfræðingum er alvarlegt vandamál sem vegur að öryggi innan heilbrigðisþjónustunnar og er tálmi í vegferð þeirri sem lagt er upp með í þingsályktunartillögu þessari. Til þess að markmið þingsályktunartillögunar geti gengið þarf margt að breytast.

Það þarf að fjölga hjúkrunarfræðingum og auka gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustunni. Það þarf að tryggja nýliðun hjúkrunarfræðinga og snúa við atgervisflótta úr stéttinni. Það má gera með því m.a. að fjölga nemendum í hjúkrunarfræði, skapa aðlaðandi og öruggt starfsumhverfi, auka starfsánægju, minnka álag í starfi, huga að heilsueflingu, endurskoða vinnufyrirkomulag og efla sí- og endurmenntun. Jafnframt þarf að fjölga sérfræðingum í hjúkrun, efla umbóta- og þróunarstarf, setja nánari viðmið um lágmarksmönnun hjúkrunarfræðinga á vakt og síðast en ekki síst bæta laun og kjör hjúkrunarfræðinga.

Að lokum tekur Fíh undir umsögn Embættis landlæknis dagsetta 21. febrúar 2024.