Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um drög að breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill gera athugasemdir við eftirfarandi breytingar þar sem það telur þær ekki til bóta hvorki fyrir skjólstæðinga né starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.

Lögð hafa verið fram drög að frumvarpi til breytinga á núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill gera athugasemdir við eftirfarandi breytingar þar sem það telur þær ekki til bóta hvorki fyrir skjólstæðinga né starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.

10. gr. Fagstjórnendur
Félagið telur afnám stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra lækninga ekki til þess fallið að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar eins og stefnt er að með heilbrigðisáætlun til 2030 og breytingum á núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu. Einnig er þetta þvert á áherslur Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um að styrkja enn frekar leiðtoga/forystuhlutverkið í hjúkrun, sérstaklega í stjórnunarstöðum og í stjórnsýslu heilbrigðiskerfisins og að stjórnvöld viðurkenni mikilvægi þess varðandi árangursríka ríkisrekna heilbrigðisþjónustu. Umfangsmesta starfsemi heilbrigðisstofnana er annars vegar hjúkrun og hins vegar læknisþjónusta og því er mikilvægt að það komi skýrt fram í lögum hverjir bera faglega ábyrgð á þessari starfsemi heilbrigðisstofnunar gagnvart forstjóra.

11. gr. Fagráð
Ráða má af texta fyrirhugaðrar 11. gr. að á hverri heilbrigðisstofnun, sem rekin er af ríkinu, skuli vera starfandi eitt fagráð skipað fulltrúum allra heilbrigðisstétta sem starfa á stofnuninni. Skal það vera forstjóra heilbrigðisstofnunarinnar til ráðuneytis um málefni hennar.
Löggiltar heilbrigðisstéttir í landinu eru 31. Ætla má að á stærri heilbrigðisstofnunum starfi fjöldi heilbrigðisstétta og því erfitt að gera sér í hugalund eitt fagráð, sem samanstendur af allt að 25 fulltrúum hinna mismundi fagstétta, verði sá vettvangur sem gert er ráð fyrir í nýju lögunum.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga telur í ljósi þess að hjúkrun og lækningar eru stærsta og umfangsmesta starfsemi heilbrigðisstofnana að það væri skref afturábak að leggja niður hjúkrunar- og læknaráð því þangað getur forstjóri sem ekki hefur heilbrigðismenntun leitað faglegra ráða varðandi umfangsmestu þætti í starfsemi stofnunarinnar. Til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar þarf að vera til staðar virk fagráð hjúkrunarfræðinga og lækna líkt og verið hefur. Önnur fagráð mætti setja á stofn eftir atvikum sé þess talin þörf sbr. 13.gr. í núgildandi lögum.

Í greinagerð með frumvarpinu þar sem fjallað er um að sérstakt fagráð skuli vera starfandi á heilbrigðisstofnunum (12. gr.) segir m.a. „Með þeim breytingum sem frumvarpið leggur til er leitast við að allar starfstéttir leysi mál sín í samvinnu hvor við aðra enda sé markmiðið að sjúklingur fái sem besta þjónustu. Í því samhengi þykir rétt að fella brott úr gildandi lögum að starfa skuli læknaráð og hjúkrunarráð en þess í stað komi ráð allra fagstétta heilbrigðisstarfsmanna inna heilbrigðisstofnana forstjóra til rágjafar“
Hér virðist gæta einhvers misskilnings á hlutverki hjúkrunarráðs og læknaráðs. Hlutverk þeirra er að vera stjórnendum til ráðgjafar á faglegum vettvangi til að tryggja sjúklingum sem besta mögulega meðferð og þjónustu. Fagráð hefur ekkert með ágreining milli stétta að gera og því á það ekki að vera vettvangur til að leysa slík mál. Vettvangur til að vinna að slíkum málum getur aldrei heitið fagráð né haft það hlutverk sem núverandi fagráð hjúkrunarfræðinga og lækna hefur með höndum. Samstarf milli stofnana, teymisvinna starfsstétta og þverfagleg heildræn nálgun í vinnubrögðum heilbrigðisstarfsfólks er þegar til staðar og þarf að skerpa frekar á því. Ekki þarf lagabreytingu til þess heldur breytingu í vinnustaðamenningu heilbrigðisstarfsfólks.

Að lokum hvetur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga heilbrigðisráðherra til að draga til baka umrætt lagafrumvarp og hafa meira samráð við hjúkrunarfræðinga við breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem þeir eru fjölmennasta heilbrigðistéttin og starfa á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar.