Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða

Full þörf er á að endurskipuleggja heildræna heilbrigðis- og félagsþjónustu við aldraða í landinu, óháð búsetu og því nauðsynlegt að stórefla heimaþjónustu, heimahjúkrun og dagvalir fyrir eldra fólk.

Efni: Umsögn um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða, 720. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar tillögu til þingsályktunar um nýja velferðarstefnu fyrir aldraða (Þingskjal 1199-720. mál). Full þörf er á að endurskipuleggja heildræna heilbrigðis- og félagsþjónustu við aldraða í landinu, óháð búsetu og því nauðsynlegt að stórefla heimaþjónustu, heimahjúkrun og dagvalir fyrir eldra fólk.

Eins og fram kemur í skýrslu Fíh og fagdeildar öldrunarhjúkrunarfræðinga,Hjúkrunarþjónusta eldri borgara, horft til framtíðar, frá maí 2015, er nauðsynlegt að þjónusta við aldraða sem búa á eigin heimili, sé sniðin að þörfum hins aldraðra og fjölskyldu hans. Forgangsröðun þarf að byggjast á faglegum forsendum og virku endurmati á þjónustuþörf. Skipulögð samvinna milli stofnana og þjónustuaðila sem veita öldruðum heimaþjónustu, þarf að vera til staðar, til að auka skilvirkni, hagkvæmni og bæta nýtingu úrræða. Eins og fram kemur í 2. kafla heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðuneytisins fyrir íslenskra heilbrigðisþjónustu til ársins 2030, er heilbrigðisþjónustunni skipt í 3 stig og skal jafnframt veita rétta þjónustu á réttum stað. Auk heilsugæslu er þjónusta og hjúkrun aldraðra á hjúkrunarheimilum, hjúkrunar- og dvalarrýmum og dagdvöl aldraðra flokkuð sem 1. stigs heilbrigðisþjónusta.

Ný stefna Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til ársins 2030 samþykkt á aðalfundi félagsins í maí 2021. Þar kemur fram að hjúkrun er ein af meginstoðum heilbrigðisþjónustunnar og bera hjúkrunarfræðinga ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu, þ.m.t. öldrunarhjúkrunarþjónustu. Hjúkrun er og verður lykilþáttur öldrunarþjónustunnar. Því er nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar séu í forsvari og fararbroddi þegar kemur að hjúkrun aldraðra. Þeim ber að tryggja að aldraðir fái þá hjúkrun og endurhæfingu sem þeir þarfnast, hvort heldur er í heimahúsum, heilsugæslu, á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum. Samræmist það Heimsmarkmiði 3 um heilsu og vellíðan frá Sameinuðu þjóðunum.

Stefnumið Fíh til 2030 sem tengjast öldrunarhjúkrun eru:

  • Öflugar hjúkrunarmóttökur eru til staðar innan heilbrigðiskerfisins sem sinna 1. og 2. stigs heilbrigðisþjónustu.
  • Hlutverk öldrunarhjúkrunarfræðinga innan heilsugæslunnar er skilgreint og tryggt að hrumir aldraðir fái þjónustu á réttu þjónustustigi og skilgreindan umsjónarhjúkrunarfræðing á heilsugæslu.
  • Hjúkrunarmóttökur fyrir aldraða með ýmis heilsufarsvandamál eru til staðar þar sem lögð er áhersla á samstarf við heimahjúkrun og stuðning við aðra þjónustustaði fyrir aldraða.
  • Hjúkrunarfræðingar í heilsugæslu bjóða upp á heilsueflingu og heilsueflandi móttökur um heilbrigðan lífstíl fyrir aldraða (75 ára og eldri).
  • InterRAI-mælitækið er notað í öllum þjónustukerfum fyrir aldraða.
  • Sérfræðingar í öldrunarhjúkrun sinna beinni þjónustu við aldraða einstaklinga og fjölskyldur þeirra, veita stuðning, fræðslu og leiðsögn til annarra fagaðila á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar.
  • Heildræn öldrunarþjónusta í þjónustukjörnum er hjúkrunarstýrð.
  • Gagnreynd þekking og umhyggja fyrir sjúklingum og fjölskyldum þeirra er grunnur í allri hjúkrunarmeðferð.
  • Sérfræðingar í endurhæfingarhjúkrun eru virkir meðferðaraðilar í endurhæfingu á sérhæfðum endurhæfingarmiðstöðvun, í heilsugæslu, á geðdeildum, göngudeildum og við endurhæfingu langveikra og aldraðra á öllum þjónustustigum og stöðum sem þjónusta aldraða.
  • Fjarheilbrigðisþjónusta og rafrænar lausnir eru virkir þættir í forvörnum, meðferð, endurhæfingu og eftirfylgd hjúkrunarfræðinga við skjólstæðinga sína.
  • Gagnreynd samhæfð hjúkrun er í boði og nýtt á viðeigandi hátt samhliða hefðbundinni hjúkrunarmeðferð í heilsueflandi skyni fyrir sjúklinga og starfsfólk heilbrigðisstofnana.
  • Hjúkrunarfræðingar stuðla að auknu samstarfi milli stofnana varðandi rafrænar lausnir og gæðaþróun og innleiðing gæðaverkefna er miðlæg innan heilbrigðisstofnana.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu við nýja velferðarstefnu fyrir aldraða, þegar farið verður í það verkefni að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim.