Kæru hjúkrunarfræðingar.
Á síðustu tveimur vikum hafa hjúkrunarfræðingar samþykkt skammtímasamnings félagsins við Reykjavíkurborg og ríkið. Þó svo að félagið sé ekki búið að semja um kjarasamning við sveitarfélög og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu þá markar þessi niðurstaða vatnaskil í kjarabaráttunni. Þetta er í fyrsta sinn í meira en áratug sem hjúkrunarfræðingar semja um launakjör sín við ríkið og eru loks lausir úr fjötrum gerðardóms.
Langflestir hjúkrunarfræðingar eru nú komnir í sama skjól fyrir verðbólgunni og aðrar stéttir en á sama tíma erum við komin með öflug vopn í hendurnar fyrir gerð langtímasamninga á næsta ári. Skilaboðin okkar eru skýr, líklega hefði kjarasamningurinn við ríkið ekki verið samþykktur, ef ekki væri fyrir stöðuna í efnahagsmálum og vegna þess að hann rennur út innan árs. Þolinmæðin er löngu á þrotum þrátt fyrir að við séum raunsæ.
Með þessum kjarasamningi samþykkti ríkið, í fyrsta sinn, að fara í viðræður um virði kvennastarfa og Reykjavíkurborg er tilbúið í samtalið um endurmat á störfum stéttarinnar. Ríkið er skuldbundið því að ljúka vinnu með okkur fyrir lok ágústmánaðar að meta verkefni hjúkrunarfræðinga og skyldur þeirra með tilliti til launa. Fyrir lok þessa árs verður starfshópar búnir að yfirfara starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu og endurskoðun á mati starfa stéttarinnar hjá Reykjavíkurborg. Vinnan samkvæmt verkáætlun beggja samninga er þegar hafin, fyrstu fundir bókaðir og strax farin að undirbúa næstu kröfugerð. Einnig er verið að óska eftir fundum með heilbrigðisstofnunum til að endurskoða stofnanasamningana og verður það að gerast, niðurstöður beggja þessa kosninga kalla á það.
Aðalfundur á föstudegi
Föstudaginn 12. maí næstkomandi, á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga, fer fram aðalfundur félagsins. Þetta árið fer fundurinn fram í Hörpu og hefst kl. 13:00. Eftir aðalfund verður boðið upp á stutta hátíðardagskrá í tilefni dagsins með léttum veitingum. Eftir það er tilvalið að dreifa sér um miðborgina með collegum og njóta enn frekar samverstunda. Líkt og í fyrra þá verður aðalfundurinn í streymi og kosningarnar rafrænar.
Á aðalfundinum verður kosið í stjórn félagsins, ritnefnd tímaritsins, kjörnefnd, orlofsnefnd og í stjórn styrktarsjóðs. Starfsemi félagsins byggir á þeim hjúkrunarfræðingum sem gefa kost á sér, á sama tíma og ég þakka þeim sem bjóða sig fram þetta árið þá hvet ég alla hjúkrunarfræðinga að hafa það bak við eyrað á næstu árum.
Einstakur viðburður fyrir hjúkrunarfræðinga
Miðvikudaginn 10. maí, í viku hjúkrunar, verður boðið upp á einstakan viðburð einungis fyrir hjúkrunarfræðinga. Framleiðendur sjónvarpsþáttanna Stormur sem sýndir voru í sjónvarpinu í vetur ætla að hitta okkur í Smárabíó milli kl. 17 og 19 til að sýna okkur áður óséð myndefni. Þeir fylgdust með Covid-faraldrinum frá upphafi og því tókst aðeins að setja lítinn hluta af þeim sögum í sjónvarpið. Eftir það ætla þeir að ræða við okkur og gefa kost á spurningum, ég á von á líflegum umræðum um þennan erfiða tíma.
Áfram höldum við í baráttunni og vil ég hvetja hjúkrunarfræðinga til að taka þátt í 1. maí göngum um allt land. Slagorð sameiginlegrar baráttu launafólks í ár er: Réttlæti-Jöfnuður-Velferð.