Fara á efnissvæði

Uppsögn

Lengd uppsagnarfrests og framkvæmd uppsagnar er mismunandi eftir því hvort hjúkrunarfræðingur starfar hjá ríki eða sveitarfélagi eða á almennum vinnumarkaði. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hvetur félagsfólk til að hafa samband við félagið og leita ráða ef það er að íhuga uppsögn eða er sagt upp starfi.

Ríki og sveitarfélög

Uppsögn þarf að vera skrifleg og miðast við mánaðamót. Uppsögn á að vera á sama tungumáli og ráðningasamningur. Lengd uppsagnarfrests miðast við starfstíma og er 3 mánuðir fyrir félagsmenn sem eru ráðnir ótímabundið (með fastráðningu) og lengist eftir 10 ár og við ákveðinn lífaldur. Tímabundin ráðning fellur úr gildi við lok samningstíma án sérstakrar uppsagnar. Mikilvægt er að tilkynna starfsmanni í tíma að ekki standi til að framlengja tímabundna ráðningu.

Uppsagnarfrestur miðað við starfstíma

  • Ótímabundin ráðning/fastráðning: 3 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 55 ára: 4 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 60 ára: 5 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 63 ára: 6 mánuðir

Starfsmaður getur ávallt sagt upp starfi sínu með 3ja mánaða fyrirvara.

Ástæða uppsagnar

Uppsagnir hjúkrunarfræðinga hjá ríki og sveitarfélögum og fyrirtækjum sem heyra undir Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu skulu ávallt byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en ólíkar málsmeðferðarreglur gilda eftir því hvort ástæða uppsagnar er að rekja til starfsmannsins sjálfs eða atvinnurekanda. Þannig er áminning almennt nauðsynlegur undanfari lögmætrar uppsagnar af ástæðum sem rekja má til starfsmannsins. Sé ástæða uppsagnar hins vegar að rekja til atvinnurekanda, s.s. vegna skipulagsbreytinga eða hagræðingar í rekstri ber atvinnurekanda ekki skylda þess að veita starfsmanni áminningu en honum ber þó að gæta málefnalegra sjónarmiða.

Almennur vinnumarkaður

Uppsögn þarf að vera skrifleg og miðast við mánaðamót á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfsmanns. Lengd uppsagnarfrests miðast við starfstíma og lengist eftir 10 ár og við ákveðinn lífaldur. Tímabundin ráðning fellur úr gildi við lok samningstíma án sérstakrar uppsagnar. Mikilvægt er að tilkynna starfsmanni í tíma að ekki standi til að framlengja tímabundna ráðningu.

Uppsagnarfrestur miðað við starfstíma

  • Á fyrstu 3 mánuðum: 1 vika
  • Eftir 3 mánaða starf: 1 mánuður
  • Eftir 6 mánaða starf: 3 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 55 ára: 4 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 60 ára: 5 mánuðir
  • Eftir 10 ára samfellt starf og starfsmaður orðinn 63 ára: 6 mánuðir

Starfsmaður getur ávallt sagt upp starfi sínu með 3ja mánaða fyrirvara.

Ástæða uppsagnar

Á almennum vinnumarkaði eiga hjúkrunarfræðingar sem er sagt upp starfi rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnarinnar. Ósk um slíkt verður að berast fjórum sólarhringum eftir að uppsögn er móttekin og skal viðtal eiga sér stað innan fjögurra sólarhringa þar frá. Fallist atvinnurekandi ekki á ósk launþega um skriflegar skýringar, á launþegi rétt á öðrum fundi innan fjögurra sólarhringa um ástæður uppsagnarinnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef launþegi óskar þess.

Uppsagnarvernd

Ákvæði um sérstaka uppsagnarvernd gildir bæði um hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá hinu opinber jafnt sem á almennum vinnumarkaði, s.s um trúnaðarmenn og starfsfólk í fæðingar- og foreldraorlofi. Njóti hjúkurnarfræðingur uppsagnarverndar ber vinnuveitanda að rökstyðja skriflega hvaða ástæður liggja að baki uppsögn.

Við uppsagnir ber að gæta ákvæða laga sem takmarka frjálsan uppsagnarrétt vinnuveitanda, m.a. ákvæða um trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn, barnshafandi konur og foreldra í fæðingarorlofi, starfsmenn sem tilkynnt hafa um fæðingar- og foreldraorlof og starfsmenn sem bera fjölskylduábyrgð. Einnig verður að gæta ákvæða 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna, laga um starfsmenn í hlutastarfi, laga um réttastöðu starfsmanna við aðilaskipta að fyrirtækjum og samráðsskyldu laga um hópuppsagnir.

Leit í kjarasamningum

Kjarasamningaleitin gerir þér kleift að leita með einföldum hætti í gildandi kjarasamningum, til dæmis til að sjá hvar tiltekin lykilhugtök koma fyrir, eins og orlof, veikindi og vinnutími.

Sjá nánar