Ríki og sveitarfélög
Eftirfarandi gildir um hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum sem heyra undir kjarasamnig Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Réttur til launa í veikindum fer eftir starfsaldri og ráðningarformi. Hjúkrunarfræðingar sem ráðnir eru ótímabundið eiga rétt á að halda föstum launum í veikindum í ákveðinn tíma sem tekur mið af starfsaldri. Við talningu veikindadaga er miðað við veikindi siðustu 12 mánuði og sá fjöldi daga í veikindum dregnir frá veikindarétti. Ávinnsla veikindaréttar miðar við starfsaldur, bæði hjá núverandi vinnuveitanda og hjá stofnunum ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignastofnana sem kostaðar eru að meirihluta af almannafé.
Veikindaréttur starfsfólks á mánaðarlaunum
Starfsfólks sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum heldur launum svo lengi sem veikindadagar verða ekki fleiri á 12 mánuðum:
- 0-3 mánuðir í starfi: 14 dagar
- Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
- Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
- Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
- Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
Við framantalinn rétt bætist auk þess réttur til mánaðarlauna í 13 vikur eða 91 dagur ef óvinnufærni stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi.
- Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
- Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar
Átt er við almanaksdaga en ekki vinnudaga, þ.e. virka daga eða daga sem falla á vaktskrá.
Veikindaréttur tímavinnufólks
Tímavinnufólk á styttri veikindarétt en þeir sem eru ráðnir til starfa á mánaðarlaunum og er veikindaréttur þeirra eftirfarandi:
- Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
- Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
- Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
- Eftir 3 mánuði í starfi: 14 dagar
- Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar
Hér átt við almanaksdaga en ekki vinnudaga og starfsmenn halda sínum launum.
Launagreiðslur í veikindum
Launagreiðslur í veikindum eru skv. vinnuskýrslu fyrstu viku veikinda en eftir það meðaltal álags og yfirvinnu. Ef um er að ræða veikindi eftir slys í vinnu eða slys á leið til vinnu, eru laun óbreytt frá upphafi veikinda.
Laun í veikindum eru ekki greidd lengur en ráðningu er ætlað að standa.
Vottorð vegna veikinda
Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist er af vinnuveitanda.
Yfirmaður getur krafist vottorðs hvenær sem er, ef þörf þykir á og skiptir þá ekki máli hvort heldur er, skammtíma eða langtímaveikindi.
Hafi veikindi varað lengur en 1 mánuð má starfsmaður ekki hefja starf að nýju nema læknir votti um að heilsa hans leyfi (starfshæfnisvottorð).
Hlutaveikindi
Veikindi að hluta eða svokölluð hlutaveikindi byggir á heimildarákvæði í kjarasamningum ríkis- og sveitarfélaga og getur því aðeins nýst starfsmanni ef forstöðumaður samþykkir það. Aðstæður á vinnustað geta þó verið þannig að slíku verði ekki við komið.
Heimildin er hugsuð til þess að starfsmaður sem verið hefur frá starfi vegna veikinda eða slyss fái aðlögunartíma þegar hann kemur aftur til starfa. Þannig geti hann tekið upp fullt starf að nýju í áföngum, t.d. með því að vinna hálft starf fyrstu vikurnar. Heimildin skal aðeins notuð sem hluti af endurhæfingu og alltaf tímabundið. Hver dagur í hlutaveikindum telst sem hálfur veikindadagur sé starfsmaður sé með 50% vottorð og 50% í starfi.
Starfsmaður getur ekki talist að hálfu veikur og hálfu frískur í orlofi. Fari starfsmaður sem verið hefur í hlutaveikindum í frí telst það að fullu til orlofstöku nema að læknir votti að starfsmaður geti ekki notið orlofs en þá telst fríið að fullu til veikinda. Í raun er framkvæmdin þannig að einn starfsmaður er talinn líkt og um tvo starfsmenn væri að ræða, sem gegna hvor sínu hlutastarfinu, annar er veikur en hinn í vinnu. Telja skal veikindadaga hjá hinum veika miðað við hlutfall veikindalauna en sá sem er í vinnu ávinnur sér veikindarétt í samræmi við unnið starfshlutfall.
Uppsögn vegna veikinda
Veikindaréttur fellur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi eða honum er sagt upp störfum.
Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en veikist eftir það greiðast laun ekki lengur en til loka ráðningartímans. Hafi veikindi hins vegar borið að áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindaréttur tæmdur.
Lausnarlaun
Hafi starfsmaður verið samfellt frá vinnu vegna veikinda eða slysa launalaust í jafnlangan tíma og réttur til launa í veikindum varði, má leysa hann frá störfum vegna heilsubrests. Starfsmanni er þá veitt lausn frá störfum enda votti læknir að hann sé varanlega óvinnufær. Svokölluð lausnarlaun eru föst laun í þrjá mánuði. Mikilvægt er að nýta fyrst rétt til sjúkradagpeninga hjá Styrktarsjóði Fíh áður en lausnarlaun greiðast.
Fjarvera vegna veikinda barna
Foreldri barns, yngra en 13 ára, á rétt á að vera frá vinnu vegna veikinda barna í samtals 12 vinnudaga (96 vinnuskyldustundir m.v. fullt starf) á hverju almanaksári og endurnýjast sá réttur um hver áramót. Fjarvera má vera í heilum eða hálfum dögum eða nokkrar klukkustundir í senn. Sami réttur á við um börn undir 16 ára aldri þegar upp koma alvarleg tilvik sem leiða til sjúkrahúsvistar í a.m.k. einn dag.
Hjúkrunarfræðingar eru hvattir til að fá ráðgjöf frá kjara- og réttindasviði ef verið er að íhuga uppsögn vegna veikinda.
Almennur vinnumarkaður
Eftirfarandi gildir um hjúkrunarfræðinga sem starfa eftir kjarasamningi félagsins og Samtaka atvinnulífsins.
Veikindaréttur miðast við greidda veikindadaga á 12 mánaða launatímabili. Þegar starfsmaður verður óvinnufær er við upphaf veikinda litið til þess hversu margir dagar hafa verið greiddir á síðustu 12 mánuðum og dragast þeir frá áunnum veikindarétti.
Veikindaréttur
Föst laun í veikinda- og slysaforföllum, svo lengi sem veikindadagar verða ekki fleiri á 12 mánuðum:
- Á 1. ári í starfi: 2 dagar greiðast fyrir hvern unninn mánuð
- Eftir 1 árs starf hjá sama atvinnurekanda: 2 mánuðir
- Eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda: 4 mánuðir
- Eftir 10 ára starf hjá sama atvinnurekanda: 6 mánuðir
Þó skal starfsmaður sem áunnið hefur sér réttindi til 4 eða 6 mánaða launagreiðslna í veikindaforföllum hjá síðasta vinnuveitanda og skiptir um vinnustað eiga rétt til launagreiðslna um eigi skemmri tíma en í 2 mánuði á hverjum 12 mánuðum.
Launagreiðslur í veikindum
Laun í veikindum miða við föst laun. Með föstum launum er átt við dagvinnulaun auk fastrar reglubundinnar yfirvinnu.
Laun greiðast þó ekki lengur en ráðningu er ætlað að standa.
Vottorð vegna veikinda
Ef starfsmaður verður óvinnufær vegna veikinda eða slyss, skal hann þegar tilkynna það yfirmanni sínum sem ákveður hvort læknisvottorðs skuli krafist. Endurgreiða skal starfsmanni gjald vegna læknisvottorða sem krafist er af vinnuveitanda.
Yfirmaður getur krafist vottorðs hvenær sem er, ef þörf þykir á og skiptir þá ekki máli hvort heldur er, skammtíma eða langtímaveikindi.
Hafi veikindi varað lengur en 1 mánuð má starfsmaður ekki hefja starf að nýju nema læknir votti um að heilsa hans leyfi (starfshæfnisvottorð).
Uppsögn í veikindum
Veikindaréttur fellur niður við starfslok hvort heldur starfsmaður segir upp starfi eða honum er sagt upp störfum.
Hafi starfsmanni borist uppsögn með venjulegum uppsagnarfresti en veikist eftir það greiðast laun ekki lengur en til loka ráðningartímans. Hafi veikindi hins vegar borið að áður en til uppsagnar kemur, heldur starfsmaðurinn veikindarétti sínum þar til hann er vinnufær á ný eða veikindaréttur tæmdur.
Fjarvera vegna veikinda barna
Fyrstu sex mánuði í starfi hjá vinnuveitanda er foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri, enda verði annarri umönnun ekki við komið. Eftir 6 mánaða starf verður rétturinn 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili. Foreldri heldur dagvinnulaunum sínum, svo og vaktaálagi þar sem það á við. Með foreldri í er einnig átt við fósturforeldri eða forráðamann, sem er framfærandi barns og komi þá í stað foreldris.
Sorgarleyfi
Sorgarleyfi er leyfi frá störfum sem stofnast vegna missi barns yngra en 18 ára. Vinnumálastofnun sér um greiðslur til foreldra vegna sorgarleyfis.
Lög um sorgarleyfi eiga við foreldra sem verða fyrir barnsmissi 1. janúar 2023 eða síðar, sbr. lög um sorgarleyfi nr. 77/2022. Réttur til sorgarleyfis myndast þegar foreldri hefur verið í samfelldu starfi í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði, hvort sem það eru launuð störf í annarra þjónustu eða við eigin rekstur. Ráðningarsamband helst óbreytt í sorgarleyfi og reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum. Óheimilt er að segja foreldri sem nýtur rétt sinn til sorgarleyfis upp störfum á grundvelli þess að tilkynning um slíkt hefur borist atvinnurekanda.