Fara á efnissvæði

Réttindi og vernd trúnaðarmanna

Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og stjórnenda stofnanna annars vegar og milli félagsmanns og kjara- og réttindasviðs félagsins hins vegar. Trúnaðarmaður miðlar upplýsingum um kjara- og réttindamál til félagsfólks á hverri starfseiningu og stendur vörð um réttindi og skyldur. Fyrirspurnum og kvörtunum kemur hann í farveg innan stofnunar og/eða til kjara- og réttindasviðs félagsins.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur mikla áherslu á að trúnaðarmenn leiti til félagsins með erindi og ágreiningsefni sem upp koma á vinnustað svo hægt sé að aðstoða við lausn þeirra.

Réttindi og vernd

Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarf, sbr. 29. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Trúnaðarmanni er heimilt að sækja þing, fundi, ráðstefnu og námskeið á vegum félagsins í allt að eina viku á ári án skerðingar á reglubundnum launum. Þeir sem eru í samninganefnd fá leyfi til að sinna því verkefni án launaskerðingar. Trúnaðarmanni ber þó að tilkynna yfirmanni um slíkar fjarvistir með eðlilegum fyrirvara. Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu. Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.

Kosning

Á hverri starfseiningu þar sem a.m.k. fimm hjúkrunarfræðingar starfa er heimilt að kjósa einn trúnaðarmann. Á starfseiningu þar sem 50 hjúkrunarfræðingar eða fleiri starfa má kjósa tvo trúnaðarmenn. Trúnaðarmaður er kosinn til tveggja ára í senn. Kjör og skipan trúnaðarmanna félagsins fer fram fyrir 1. febrúar annað hvert ár, þegar ártal er á oddatölu. Tilnefning um trúnaðarmann er send til kjararáðgjafa félagsins fyrir 25. janúar. Séu fleiri en ein tilnefning frá starfseiningu hefur kjara- og réttindasvið umsjón með kosningu, sama gildir ef engin tilnefning berst frá starfseiningu. Eftir tvö ár rennur kjörtímabil trúnaðarmanns út, sé hann ekki endurkjörinn fellur niður sú vernd og réttindi sem hann nýtur samkvæmt lögum. Trúnaðarmaður telst ekki hafa réttarstöðu og lögbundna vernd nema kosning hafi verið tilkynnt vinnuveitanda.

Verklagsreglur um kjör og skipan trúnaðarmanna

1. Kjör og skipan trúnaðarmanna Fíh skal fara fram fyrir 1.febrúar annað hvert ár þegar ártal er á oddatölu.

2. Starfandi trúnaðarmaður á hverri starfseiningu kemur auglýsingu til hjúkrunarfræðinga á starfseiningu/stofnun um kjör trúnaðarmanna auk þess sem kjara- og réttindasvið Fíh birtir hana á vefsvæði og Facebook síðu félagsins (fylgiskjal 1).

3. Kjara- og réttindasvið Fíh sendir bréf til allra hjúkrunarfræðinga á viðkomandi starfseiningu í upphafi árs með tilkynningu um kjör og kynningu á starfi trúnaðarmanns (fylgiskjal 2).

4. Kjör á sér stað með kosningu ef fleiri en tveir hjúkrunarfræðingar gefa kost á sér sem trúnaðarmaður.

5. Tilnefning um trúnaðarmann er send til kjararáðgjafa Fíh fyrir 25. janúar.

6. Kjararáðgjafi staðfestir tilnefninguna ef ein tilnefning berst frá starfseiningu og er þá litið svo á að viðkomandi sér sjálfkjörinn. Ef fleiri en ein tilnefning um trúnaðarmann berst frá starfseiningu/stofnun hefur kjara- og réttindasvið Fíh umsjón með kosningu.

7. Kjara- og réttindasvið Fíh sendir staðfestingu á viðkomandi hjúkrunarfræðing um kjörið auk þess sem formleg tilkynning um trúnaðarmann er send til vinnuveitenda.

8. Ef tilnefningar um trúnaðarmann berast ekki kjara- og réttindasviði Fíh fyrir 25. febrúar mun kjara- og réttindasvið, með umboði stjórnar Fíh, skipa trúnaðarmann án tilnefningar. Skipan er gerð í samráði við hjúkrunarstjórnanda starfseiningar/stofnunar. Tilkynning um skipan er síðan send á viðkomandi starfseiningu. Slík tilhögun við skipun trúnaðarmanns á einungis að notast í undantekningatilfellum.

Tilkynningar um trúnaðarmenn