- Dagsetning
- 27 - 12. maí 2025
- Staðsetning
- Tjarnarbíó
Heimildarsýningin Stroke snýr aftur! Hjartnæm og grátbrosleg sýning sem hlaut þrjár tilnefningar til Grímunnar 2024 í flokkunum sýning ársins, leikkona í aðalhlutverki og hvatningarverðlaun.
Persónuleg saga sem á erindi við alla þá sem hafa reynslu af heilablóðfalli af eigin hendi, sem aðstandendur eða heilbrigðisstarfsmenn.
Um sýninguna
Þegar Virginia vaknaði eftir heilablóðfall var það eins og súrrealískt atriði úr trúðaleikriti. Hún var með verk- og málstol sem gerði hana að fanga í eigin líkama og hinar hversdagslegustu gjörðir urðu að þrautabraut. Áfallið breytti öllu og að útskýra upplifunina af heilablóðfallinu fyrir öðrum hefur reynst erfitt.
Fyrir áfallið starfaði Virginia lengi sem atvinnutrúður á sjúkrahúsum í Glasgow og Edinborg. Starfið snerist um að lífga upp á daga langveikra barna og fólks með heilabilun. Í dag er hún því hinumegin við borðið og veit hreinlega ekki hvort hún eigi að gráta eða hlægja að fáránleikanum. Eiginmaður Virginiu, Sæmundur, þurfti einnig að horfast í augu við nýjan veruleika og finna út úr hlutverki sínu sem aðstandandi. Saman áttuðu þau sig fljótlega á því að húmorinn var besta meðalið í veruleika sem hafði verið snúið á hvolf. Í verkinu miðla því Virginia og Sæmi, sem trúðarnir Cookie og It, upplifun sinni af áfallinu og endurhæfingunni. Þeirri sögu er jafnframt ofið saman við reynsluheim Virginiu úr leikhúsinu og heimsmynd hennar í tengslum við virkni trúðsins. Útkoman er einstök flétta um áföll, töfra sköpunarkraftsins, umhyggjusemi og seiglu.