Kæru hjúkrunarfræðingar.
Met þátttaka var á nýafstaðinni ráðstefnu félagsins, Hjúkrun 2023, en þar komu rúmlega 450 hjúkrunarfræðingar saman til að efla sína faglegu þekkingu, hitta aðra og treysta böndin. Margir hjúkrunarfræðingar komu að máli við mig og töluðu um hvað fjölbreytnin í erindum og veggspjöldum var mikil, hvað þau voru góð og endurspegluðu þá miklu grósku sem á sér nú stað í framþróun hjúkrunar hér á landi. Umræðurnar í kjölfarið voru oftar en ekki heitar og báru vott um þann mikla áhuga og skoðun sem hjúkrunarfræðinga hafa á starfinu og láta málin sig varða. Já, það var stórkostlegt að sjá afrakstur rannsókna og fræðistarfa hjúkrunarfræðinga og er þetta að mínu mati enn ein birtingarmynd á styrk og krafti stéttarinnar.
Við eigum gríðarleg öflugt fræðasamfélag hér á Íslandi, það er engin tilviljun. Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands hélt nýverið upp á að 50 ár eru liðin frá því hjúkrun var fyrst kennd á háskólastigi hér á landi, fyrst sem námsbraut innan læknadeildar en síðar sem sjálfstæð hjúkrunarfræðideild. Í rúm 35 ár hefur hjúkrunarfræði verið kennd við tvo háskóla hér á landi og tel ég það mjög gott hjá ekki stærri þjóð en við erum. Áhrifin af þeirri vinnu sem ótal eljusamir hjúkrunarfræðingar komu að við stofnun deilda í báðum háskólum eru gríðarleg og endurspeglast það beint í þeirri staðreynd að hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands er nú í 100.-150. sæti yfir bestu háskóla í heimi er kenna hjúkrunarfræði.
Mönnun skiptir öllu máli
Það var ánægjulegt að heyra í ávarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra að nokkur af okkar helstu baráttumálum okkar þokist áfram. Fyrst má nefna stefnt er að því að klára nú á haustþingi breytingu á lögum um refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks þegar alvarleg atvik koma upp á. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu, sem fór yfir rannsóknir sínar á þessu málefni á ráðstefnunni, sagði einmitt frá því að þegar hún hefur kynnt rannsóknir sínar á hinum Norðurlöndunum þá kannast enginn þar við sambærileg mál enda lagaramminn þar öðruvísi. Það segir allt sem segja þarf um nauðsyn þess að breyta lögunum tafarlaust.
Heilbrigðisráðherra nefndi svo vinnu verkefnahóps undir formennsku Guðlaugar Rakelar Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðings sem snýr að mönnun í heilbrigðisþjónustu með áherslu á hjúkrun, eða mönnunarviðmið eins og við köllum það í daglegu tali. Verið er að vinna að þessu stóra verkefni með m.a. legudeildum á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri og má vænta fyrstu niðurstaðna næsta vor. Það þarf ekki að tíunda fyrir ykkur hvers vegna það skiptir svo miklu máli að þetta verkefni sé farið af stað en jafnframt þarf að muna að góðir hlutir gerast oft hægar en maður óskar.
Peter Griffiths, prófessor í hjúkrunarfræði við Háskólann í Southampton, Bretlandi, fór vel yfir þetta í erindi sínu á Hjúkrun 2023. Í stuttu máli þá sýndi hann niðurstöður, m.a. út frá hagfræðilegu sjónarhorni, sem sýna að mönnun skiptir öllu máli þegar kemur að því að auka öryggi sjúklinga, tryggja gæði þjónustunnar og síðast en ekki síst er næg mönnun samfélagslega hagkvæm. Með því að hafa næga mönnun hjúkrunarfræðinga er hægt að útskrifa skjólstæðinga fyrr af deildum og þeir þurfa síður að leggjast inn aftur. Á sama tíma er ekki hægt að manna störf hjúkrunarfræðinga með öðru starfsfólki, það er einfaldlega verri nýting á fjármagni. Þó þetta séu að vissu leyti niðurstöður sem við þekkjum úr stórum fjölþjóðlegum rannsóknum þá höfum við ekki áður séð nálgunina með hagfræðilegum forsendum. Er það enn ein leiðin til að ná eyrum yfirvalda sem við ætlum að nýta okkur í baráttunni fyrir bættum starfskjörum.
Kynbundnu ofbeldi verði útrýmt og kvennastörf metin að verðleikum
Eins og allir vita þá losna kjarasamningar aftur næsta vor. Send var út viðhorfskönnun til allra starfandi hjúkrunarfræðinga um ýmislegt sem snýr að kjörum og starfsaðstæðum hjúkrunarfræðinga og er henni nú lokið. Þátttakan var góð og verður nú unnið úr þessum niðurstöðunum og verða þær til umfjöllunar á 2 daga ráðstefnu í byrjun nóvember fyrir trúnaðarmenn hjúkrunarfræðinga en niðurstöðurnar skipta miklu máli við mótun kröfugerðarinnar fyrir komandi kjarasamninga. Einnig verða niðurstöðurnar kynntar fyrir félagsfólki í næsta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga.
En næst er það Kvennaverkfall 24. október 2023. Á tæpri hálfri öld hafa konur á Íslandi lagt sex sinnum niður störf til að mótmæla kynbundnu misrétti hér á landi. Árið 1975 var talið að um 90% kvenna hafi lagt niður vinnu þennan dag og söfnuðust þær saman á Lækjatorgi og víða um land til að leggja áherslu á mikilvægi vinnuframlags þeirra hér á landi. Ýmsar umfangsmiklar breytingar voru gerðar í kjölfarið en betur má ef duga skal. Ennþá er framlag kvenna til okkar samfélags gróflega vanmetið. Margar rannsóknir sýna ennþá fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi sem því miður hefur ekki tekist að uppræta og má segja að kynbundið ofbeldi sé einn langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja í dag.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, ásamt fjölda kvennasamtaka, mannréttindasamtaka og samtaka launafólks hefur því tekið saman höndum og skipulagt viðburð 24. október, þar sem konur og kvár leggja niður launuð sem ólaunuð störf. Við ætlum sameina okkar baráttur og viljum við að eftir því sé tekið hvaða áhrif það hefur að þau séu ekki við störf. Þetta á líka við um þriðju vaktina. Grundvallarkröfur okkar eru að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt og kvennastörf verði metin að verðleikum.
Búið er að senda bréf, m.a. til stjórnenda heilbrigðisstofnana og fyrirtækja í velferðarþjónustu, þar sem óskað er eftir samvinnu þeirra til að tryggja að sem flestir geti tekið þátt, án þess að það hafi áhrif á laun þeirra og kjör. Um leið og ég hvet ykkur til að taka þátt kvennaverkfallinu vil ég benda ykkur á að ræða við ykkar stjórnendur um framkvæmd kvennaverkfallsins á ykkar vinnustað, því við ætlum ekki að ógna öryggi skjólstæðinganna. Birtar verða frekari upplýsingar af hálfu félagsins á vefsíðu þess og samfélagsmiðlum og vil ég hvetja ykkur til að fylgast þar með, sem og á vefsíðunni www.kvennaverkfall.is.
Við sjáumst á Arnarhóli og baráttufundum víðs vegar um landið kl. 14:00 þann 24. október næstkomandi!