Kæru hjúkrunarfræðingar.
Í ár eru 100 ár liðin frá því Tímarit hjúkrunarfræðinga hóf göngu sína og er fyrsta tölublað á þessu stóra afmælisári komið út. Að þessu sinni eru mjög mörg áhugaverð viðtöl í blaðinu við hjúkrunarfræðinga og -nema, auk fjögurra ritrýndra greina. Einnig er góð kynning á fyrirhuguðu Starfsþróunarsetri Fíh sem stofnað verður þann 12. maí á alþjóðlegum degi hjúkrunarfræðinga og mun fela í sér aukna möguleika á styrkjum til sí- og endurmenntunar fyrir stéttina. Ég vil líka nefna að í þessu fyrsta tölublaði ársins er samantekt um hver sýn Fíh varðandi dánaraðstoð eigi að vera en fimm meginþemu komu út úr umræðum hjúkrunarfræðinga eftir hjúkrunarþing Fíh sem haldið var í október síðastliðnum. Hjúkrun við lífslok var yfirskrift hjúkrunarþingsins og það er nauðsynlegt við kynnum okkur öll vel þessa sýn Fíh varðandi dánaraðstoð en hún er orðin nokkuð skýr í dag. Sem sagt, sneisafullt tímarit sem gott er að geta gluggað í um páskana.
Eftir samþykkt kjarasamninga í lok síðasta árs höfum við lagt mikla áherslu á að ljúka endurnýjun stofnanasamninga við okkar viðsemjendur sem allra fyrst. Mjög brýnt er að innleiða starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga á sem flestum stofnunum enda mikið hagsbótamál, bæði fyrir hjúkrunarfræðinga og atvinnurekendur, þar sem sí- og endurmenntun er mjög stór og mikilvægur þáttur í starfi okkar hjúkrunarfræðinga. Í apríl bættist Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í hóp Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og eru þá þrjár stofnanir komnar með starfsþróunarkerfi fyrir hjúkrunarfræðinga. Samtalið gengur öllu jöfnu vel við okkar viðsemjendur og ég tel að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að innleiðing starfsþróunarkerfis eigi sér stað sem allra fyrst. Ekki má gleyma því að ljósmæður eru nú þegar komnar með slíkt kerfi á nær öllum heilbrigðisstofnunum en ekki við hjúkrunarfræðingar og það er ekki ásættanlegt. Við eigum að geta klárað meginþorra stofnanasamninga fyrir sumarið og ekkert er því til fyrirstöðu að mínu mati eftir samtal síðustu mánaða. Við munum upplýsa ykkur um stöðuna jafnóðum.
Þann 15. maí næstkomandi kl. 16:30 hefst aðalfundur Fíh á Hilton Reykjavík Nordica og verður hann einnig í streymi eins og síðustu ár. Óvenju mikið verður af kosningum í nefndir, ráð og stjórnir á vegum félagsins og rennur framboðsfresturinn út á miðnætti á skírdag eða 17. apríl. Enn og aftur vil ég hvetja sem flesta til að gefa kost á sér til starfa því þannig tökum við þátt og getum látið að okkur kveða í málefnum sem varða okkur hjúkrunarfræðinga.
Nú er framundan lengsta frí ársins. Um helmingur stéttarinnar vinnur vaktavinnu og munu því margir hjúkrunarfræðingar standa vaktina yfir páskana og vil ég óska ég þeim sérstaklega góðra vakta. Vonandi hafið þið þó öll tækifæri til að njóta góðrar samveru með þeim sem standa ykkur næst. Passið vel að hlúa að ykkur sjálfum því það er forsenda þess að geta sinnt áfram hjúkrun.
Kæru hjúkrunarfræðingar ég óska ykkur öllum gleðilegra páska og hafið það sem allra best.