Fara á efnissvæði

Hjúkrunarfræðingar eru framúrskarandi fagfólk

Fagmennska og þekking hjúkrunarfræðinga er hjartað í íslensku heilbrigðiskerfi. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vinnur að framgangi hjúkrunar, faglegri þróun og gætir að réttindum og kjörum hjúkrunarfræðinga.

Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum

Hjúkrunarfræðingur er sá sem hefur starfsleyfi frá Embætti landlæknis byggt á mati á háskólagráðu í hjúkrunarfræði. Hér á landi er hjúkrunarfræði fjögurra ára háskólanám og er kennt við Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Sérfræðingur í hjúkrun er sá sem hefur hlotið starfsleyfi frá Embætti landlæknis og hefur lokið meistaraprófi eða doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá viðurkenndum háskóla.

Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og þróa stefnu heilbrigðiskerfisins með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi. Hjúkrunarfræðingar starfa sjálfstætt og í samvinnu við aðra, við að hjúkra einstaklingum á öllum aldri, fjölskyldum, hópum og samfélögum, sjúkum sem heilbrigðum og við allar aðstæður.

Í hjúkrun felst heilsuefling, heilsuvernd og umönnun sjúkra, fatlaðra og dauðvona einstaklinga. Hjúkrunarfræðingar eru málsvarar skjólstæðinga sinna, stuðla að öruggu umhverfi, stunda rannsóknir, taka þátt í stefnumótun heilbrigðisyfirvalda og starfa við stjórnun og kennslu.

Félagið

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) var stofnað árið 1919 og á sér langa og ríka sögu. Félagið er bæði fag- og stéttarfélag hjúkrunarfræðinga á Íslandi. Hjúkrunarfræðingar eru fjölmennasta heilbrigðisstéttin hér á landi. Félagsfólk er kjarni starfseminnar og eru um 4.800 alls, þar af rúmlega 3.700 starfandi félagar. Af starfandi hjúkrunarfræðingum eru rúmlega 2.600 á höfuðborgarsvæðinu og tæplega 1.100 á landsbyggðinni.

Félagið er samtök hjúkrunarfræðinga þar sem hjúkrunarfræðingar vinna saman að þróun hjúkrunar, heilbrigðisþjónustu og heilsue­flingu þjóðarinnar. Félagsfólk er kjarni starfseminnar og árangur félagsins byggir á virkri þátttöku þeirra. Félagið er hagsmunasamtök hjúkrunarfræðinga og stendur vörð um réttindi, skyldur og kjör hjúkrunarfræðinga.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Formaður ber ábyrgð á daglegri stjórn félagsins í samræmi við stefnu stjórnar. Guðbjörg Pálsdóttir hefur verið formaður frá árinu 2016.

Innan félagsins eru starfræktar deildir sem vinna að framgangi hjúkrunarfræði á sínu sérsviði eða á sérstöku landsvæði. Félagið er í virku samstarfi við samtök hjúkrunarfræðinga á alþjóðlegum vettvangi. Þar er áhersla á þróun hjúkrunar og frumkvæði haft í málum sem hafa áhrif á hjúkrunarfræðinga um allan heim.

Félagið sinnir hefðbundnu hlutverki stéttarfélags, þar á meðal kjarasamningsgerð. Auk þess að standa vörð um kjör, réttindi, skyldur og starfsumhverfi félagsfólks.

Tímarit hjúkrunarfræðinga hefur verið gefið út í ýmsum myndum frá árinu 1925. Í tímaritinu má nálgast ritrýndar fræðigreinar, fræðslugreinar, viðtöl og áhugavert efni um fagið. Á vefnum hjukrun.is má finna Rapportið, hlaðvarp Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, þar má hlusta á hjúkrunarfræðinga ræða um sín fjölbreyttu og spennandi störf.

Merki félagsins

Merki Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er fyrir löngu orðið sjálfsagður hlutur í hugum hjúkrunarfræðinga, reglulega koma þó upp vangaveltur um hvað blómið táknar og hvaðan það kemur.

Sjá nánar

Meira